Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Ferða­mála­stefna Vest­ur­byggðar

Á 371. fundi bæjar­stjórnar Vest­ur­byggðar 11. maí 2022 var stað­fest ferða­mála­stefna Vest­ur­byggðar. Í stefn­unni er að finna fram­tíð­arsýn ferða­mála í sveit­ar­fé­laginu ásamt aðgerðaráætlun.


Skrifað: 18. maí 2022

Framtíðarsýn ferðamála í Vesturbyggð er að sveitarfélagið er áfangastaður einstakrar upplifunar sjávar og sands, vatns og vellíðunar allt árið um kring. Ferðaþjónusta hefur jákvæð áhrif, skapar verðmæti fyrir íbúa og ýtir undir vernd og sjálfbæra nýtingu núttúruauðlinda svæðisins. Í aðgerðaráætlun er lögð áhersla á sjálfbæra ferðaþjónustu sem snýr að náttúru og menningu. Tilgangur stefnunnar og aðgerðaráætlunarinnar er að gefa sveitarfélaginu og ferðaþjónum gott tæki til að vinna með og huga að í frekari uppbyggingu ferðamála í Vestubyggð.

Stefnan var unnin undir stjórn Vestfjarðastofu og starfshópi sem í sátu Friðbjörg Matthíasdóttir, Gunnþórunn Bender og Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir ásamt menningar- og ferðamálafulltrúa Vesturbyggðar. Upphaflega var gert ráð fyrir að gildistími stefnunnar yrði fimm ár, en þar sem vinna við stefnuna tafðist lagði bæjarstjórn til að stefnan yrði stytt og gildir hún því til næstu tveggja ára.

Stefnan byggir m.a. á Áfangastaðaáætlun Vestfjarða en fjallar með ítarlegri hætti um greiningu á ferðaþjónustu og stöðumati í Vesturbyggð. Einnig var byggt á Innviðagreiningu Vesturbyggðar frá 2019 og þá voru haldnir opnir fundir á Patreksfirði og Bíldudal í júní 2020 vegna vinnu við stefnuna. Vegna heimsfaraldurs covid-19 fór annað samráð fram með rafrænum hætti.

Ferðaþjónustan í Vesturbyggð á sér bjarta framtíð og mikilvægt er að innviðir séu til staðar og hlúið sé að þeim perlum sem eru innan sveitafélagsins. Með markvissri stefnu og aðgerðaáætlun mun það hjálpa sveitafélaginu að halda utan um og skipuleggja innviði á gömlum seglum sem og nýjum. Stefnunni er þannig ætlað að vera gott tæki fyrir sveitarfélagið og ferðaþjóna í sveitarfélaginu til að vinna með og huga að frekari uppbyggingu í rétta átt.