Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar 2021-2024

Bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar stað­festi á fundi sínum í gær, 9. desember, fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar fyrir árið 2021 og áætlanir til næstu þriggja ára.

Fjár­hags­áætl­unin tekur mið af þeirri fordæma­lausu stöðu sem uppi er vegna áhrifa kórónu­veirufar­ald­ursins. Veruleg tekju­skerðing er áætluð á árinu 2021, m.a. vegna skertra fram­laga úr Jöfn­un­ar­sjóði sveit­ar­fé­laga og lægri rekstr­ar­tekna, sem rekja má beint til áhrifa kórónu­veirufar­ald­ursins. Framlög Jöfn­un­ar­sjóðs hafa frá árinu 2018 lækkað úr 418 millj. kr. í 317 millj. kr. á árinu 2021. Hefur þessi mikla skerðing gríð­arleg áhrif fyrir rekstur sveit­ar­fé­lagsins. Ráðist var í veru­legan niður­skurð á árinu 2020 og mitt í þeirri vegferð, fór sveit­ar­fé­lagið Vest­ur­byggð inn í þá flóknu og erfiðu tíma sem kórónu­veirufar­ald­urinn hefur haft í för með sér fyrir rekstur sveit­ar­fé­lagsins, líkt og annarra sveit­ar­fé­laga hringinn í kringum landið.


Skrifað: 10. desember 2020

Fréttir

Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er lögð rík áhersla á að standa vörð um lögbundna þjónustu sveitarfélagsins, með áherslu á fræðslu-, uppeldis- og æskulýðsmál og hún verði ekki skert á árinu þrátt fyrir lægri tekjur.

Í áætluninni 2021 er ekki gert ráð fyrir að draga úr nauðsynlegri fjárfestingu. Ástæða þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Vesturbyggðar er í fyrsta lagi til að tryggja áframhaldandi framþróun sveitarfélagsins sem er nú í örum vexti og í öðru lagi til að veita nauðsynlega viðspyrnu fyrir samfélagið í heild sinni til að takast á við tímabundin áhrif kórónuveirufaraldursins. Að mati bæjarstjórnar Vesturbyggðar mun áhersla á aukna fjárfestingu á árinu 2021 auka enn frekar getu sveitarfélagsins til framtíðar og styrkja stöðu Vesturbyggðar til að takast á við enn frekari vöxt, atvinnuuppbyggingu og fjölgun íbúa.

Í samstæðu Vesturbyggðar í heild sinni er gert ráð fyrir að heildartekjur verði 1,6 milljarður króna en heildarútgjöld 1,4 milljarður króna fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Afskriftir eru áætlaðar 81 milljón og fjármagnsliðir 110 milljónir. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs og stofnana er því áætluð að verða neikvæð uppá 29,5 milljónir á árinu 2021.

Almenn hækkun á gjaldskrám Vesturbyggðar 2012 eru 2,5% og tekur mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga 2019-2022.

Í áætlun fyrir árin 2022- 2024 er að finna yfirlit um helstu fjárfestingar til næstu ára, sem markar stefnu sveitarfélagsins til þeirrar öflugu framtíðaruppbyggingar sem fyrirhuguð er í Vesturbyggð. Þá er gert ráð fyrir að markvisst verði áfram dregið úr rekstrarkostnaði, sem mun nema um 2% á árinu 2022, en unnið verður að þeirri hagræðingu á árinu 2021. Þriggja ára áætlunin byggir annars á magnbreytingum, fjölgun íbúa og að framlög Jöfnunarsjóðs muni jafna sig á tímabilinu sem og að aðrar tekjur muni aukast á ný. Fjárhagsáætlunin gerir því ráð fyrir betri tíð með blóm í haga líkt og skáldið orti eitt sinn.