Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar 2022-2025

Bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær, 15. desember 2021, fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar fyrir árið 2022 og áætlanir til næstu þriggja ára.


Skrifað: 16. desember 2021

Fréttir

Fjárhagsáætlun 2022-2025 ber merki um þann mikla vöxt sem sveitarfélagið hefur tekist á við og stendur frammi fyrir á næstu árum. Áherslur í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2022 miða að því að styðja áfram við fjölskylduvænt samfélag og nema framlög til fræðslu, íþrótta- og æskulýðsmála í Vesturbyggð á árinu 2022 samtals 64,4% af tekjum A-hluta.

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að heildartekjur A-hluta á árinu 2022 verði 1,4 milljarður króna og heildarútgjöld án afskrifta og fjármagnskostnaðar verði 1,36 milljarður króna. Rekstur A- hluta fyrir fjármagnsliði er neikvæður um 2,2 millj.kr., fjármagnsliðir eru rúmar 80 millj. kr. og rekstrarniðurstaðan því neikvæð um rúmar 82 millj. kr. Í fjárhagsáætlun 2022 er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður A-hluta dragist saman um 2% og hefur markvisst verið unnið að því á árinu 2021. Veltufé frá rekstri A-hluta er um 28 millj. kr. Fjárfestingar í A-hluta eru 131 millj.kr. og afborganir langtímalána 120 millj.kr.

Í samstæðunni í heild sinni er gert ráð fyrir að heildartekjur verði 1,8 milljarður króna en heildarútgjöld verði 1,5 milljarður króna fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Afskriftir eru áætlaðar 91 millj. kr. og fjármagnsliðir 113 millj. kr. Rekstur A – og B-hluta fyrir fjármagnsliði er jákvæður um rúmar 157 millj.kr. og rekstrarniðurstaðan jákvæð um 44 millj.kr. Veltufé frá rekstri er 206 millj.kr. Fjárfestingar í samstæðunni eru áætlaðar 288 millj. kr.

Almenn hækkun á gjaldskrám Vesturbyggðar er 2,5% á milli ára og tekur mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. Í áætluninni er gert ráð fyrir að álagningastuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði hækki úr 0,45% í 0,55% af fasteignamati. Ákvörðun um hækkun á álagningastuðli fasteignaskatts er m.a. tekin til að aðlaga álagningastuðulinn að reglum Jöfnunarsjóðs um tekjujöfnunarframlag. Á móti þeirri hækkun er lóðaleiga á íbúðarhúsnæði og vatns- og fráveitugjöld á íbúðarhúsnæði lækkuð. Einnig var horft til áhrifa af hækkun fasteignamats, sem hækkaði að jafnaði um 15,2% á milli ára. Hækkun fasteignamats er breytileg eftir svæðum og tegundum fasteigna og hefur breyting á álagningastuðli því mismunandi áhrif á gjaldendur í Vesturbyggð. Áfram eru veittir afslættir af fasteignaskatti til eldri borgara og öryrkja samkvæmt ákveðnu tekjuviðmiði, sem hækkar um 5,8 % á milli ára. Álagningastuðlar fasteignaskatts á annað húsnæði eru óbreyttir þ.e., 1,32% fyrir stofnanir og 1,65% fyrir aðrar eignir.

Til að milda þau áhrif sem verða af hækkun fasteignamats fyrir gjaldendur í Vesturbyggð er á árinu 2022 gert ráð fyrir að gjalddögum til greiðslu fasteignagjalda verði fjölgað úr 9 gjalddögum í 11 gjalddaga, en fyrsti gjalddagi er 1. febrúar 2022.

Skuldahlutfall A- og B-hluta samstæðu Vesturbyggðar á árinu 2022 er áætlað 130,9% en var skv. fjárhagsáætlun 2021, samtals 156,6% og lækkar nokkuð milli ára. Skuldaviðmið samstæðunnar er áætlað 114% en var skv. fjárhagsáætlun 2021, 121,6%.

Í áætlun fyrir árin 2023- 2025 er að finna yfirlit um helstu fjárfestingar til næstu ára, sem markar stefnu sveitarfélagsins til þeirrar öflugu framtíðaruppbyggingar sem framundan er í Vesturbyggð. Þriggja ára áætlun byggir annars á magnbreytingum, fjölgun íbúa og framlögum Jöfnunarsjóðs sem og öðrum tekjum.