Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar

Fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2024-2026 var samþykkt samhljóða á bæjar­stjórn­ar­fundi 14. desember sl. Fjár­hags­áætlun skal gefa glögga mynd af rekstri sveit­ar­fé­lags og efnahag, hvernig sveit­ar­félag mun ráðstafa fjár­munum sínum og fjár­festa. Fjár­hags­áætlun næsta árs er alltaf bind­andi og óheimilt að víkja frá henni nema það sé samþykkt af bæjar­stjórn. Fjár­hags­áætlun er því mjög mikil­vægt verk­færi fyrir okkur sem vinnum fyrir sveit­ar­fé­lagið um hvernig fjár­munir skuli nýttir til að ná fram mark­miðum sveit­ar­fé­lagsins.


Skrifað: 30. desember 2022

Fréttir

Það hefur verið virkilega gaman að taka þátt í þessari fjárhagsáætlunarvinnu og sjá hversu vel ferlið er skipulagt, taka þátt í góðum vinnufundum bæjarfulltrúa þar sem allir bæjarfulltrúar taka þátt og síðast en ekki síst að sjá alla þá vinnu sem starfsfólk sveitarfélagsins leggur til verkefnisins. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem tóku þátt í fjárhagsáætlunarvinnunni fyrir góða og vandaða vinnu og einstaklega gott samstarf. Það er nefnilega svo ánægjulegt að taka þátt í svona vinnu þar sem öll þau sem að henni koma eru að vinna í átt að sama markmiði.

Fjárhagsáætlun 2023-2026 ber merki um að mikil uppbygging er í atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu og þá kröfu á Vesturbyggð að innviðir sveitarfélagsins séu tilbúnir fyrir meiri starfsemi og álag á hafnarsvæði og veitukerfi auk fjölgunar íbúa. Eru þetta allt merki um vöxt sveitarfélagsins og því bjart framundan. Bæjarstjórn ætlar að gera sitt til þess að vinna í rétta átt í rekstri og uppbyggingu sveitarfélagsins en aldrei hefur eins mikið fjármagn verið áætlað í fjárfestingar og á árinu 2023.

Vegna fjölgunar leikskólabarna á Patreksfirði verður svokallaðri ævintýraborg bætt við leikskólann Araklett. Húsnæðið hefur verið pantað, en fundir verða haldnir með foreldrum á nýju ári til að fara yfir þau mál. Einnig er verið að meta þá möguleika sem eru í stöðunni í húsnæðismálum Bíldudalsskóla. Auk þessa er lagt mikið í lagfæringar á húsnæði annarra skólastofnana, uppbyggingu hafnarmannvirkja og veitukerfa.

Heildartekjur A- hluta á árinu 2023 verða tæpur 1,8 milljarður króna og heildarútgjöld án afskrifta og fjármagnskostnaðar verði um 1,6 milljarður króna. Í samstæðinni er gert ráð fyrir að heildartekjur verði tæplega 2,2 milljarðar króna en heildarútgjöld verði 1,8 milljarður króna fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Afskriftir eru áætlaðar 108 millj. kr. og fjármagnsliðir 170 millj. kr.

Rekstur samstæðunnar fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 252 millj.kr., fjármagnsliðir eru um 170 millj.kr. og rekstrarniðurstaðan jákvæð um 81,6 millj.kr.

Hlutur Vesturbyggðar í fjárfestingum eru 452 millj.kr., afborganir langtímalána 182 millj.kr. og lántökur 320 millj.kr. . Veltufé frá rekstri er 317,9 millj.kr.

Gjaldstuðlar fasteignagjalda eru óbreyttir á milli ára en fasteignamat í sveitarfélaginu hækkar að jafnaði um 21,5% á milli ára.

Gjaldskrár sveitarfélagsins hækka að jafnaði um 7%, að undanskildu fæðisgjaldi í grunn- og leikskólum Vesturbyggðar sem er óbreytt milli ára. Á árinu taka gildi ný lög um meðhöndlun úrgangs sem m.a. kemur í veg fyrir að sveitarfélagið greiði með málaflokknum. Sorpgjöld hækka því mikið hjá íbúum á árinu vegna þessa. Við erum byrjuð að rýna þjónustuna og leita leiða til að lækka kostnað og þar með álögur á íbúa. Aðrar álögur eru óbreyttar.

Það er von okkar að hér sé komin fram áætlun sem sýni raunverulegan rekstur sveitarfélagsins á komandi ári sem og mælt sé fyrir um framkvæmdir sem eru í forgangi hjá sveitarfélaginu og raunhæft að ráðist verði í.