Hoppa yfir valmynd

Fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar

Fjár­hags­áætlun Vest­ur­byggðar fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2027 var samþykkt samhljóða á bæjar­stjórn­ar­fundi 13. desember sl. Fjár­hags­áætlun skal gefa glögga mynd af rekstri sveit­ar­fé­lags og efnahag, hvernig sveit­ar­félag mun ráðstafa fjár­munum sínum og fjár­festa. Fjár­hags­áætlun næsta árs er alltaf bind­andi og óheimilt að víkja frá henni nema það sé samþykkt af bæjar­stjórn. Fjár­hags­áætlun er því mjög mikil­vægt verk­færi fyrir okkur sem vinnum fyrir sveit­ar­fé­lagið um hvernig fjár­munir skuli nýttir til að ná fram mark­miðum sveit­ar­fé­lagsins.


Skrifað: 28. desember 2023

Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur áherslu á að sýna raunverulegan rekstur sveitarfélagsins og bregðast við þeirri nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem er til staðar í sveitarfélaginu. Í fjárhagsáætlun 2024-2027 er mörkuð stefna svetiarfélagsins til framtíðaruppbyggingar þar sem aðbúnað fyrir leik- og grunnskólabörn er rauður þráður í gegnum áætlunina auk gatnaframkvæmda, uppbyggingar hafnamannvirkja og veitukerfa.

Niðurstaða íbúakosninga um sameiningu sveitarfélaganna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps var að sameina skyldi sveitarfélögin. Unnið er að því að sveitarstjórnarkosningar fari fram 4. maí 2024 og tveimur vikum þar á eftir stofnast nýtt sveitarfélag.

Ákvörðun um sameiningu hefur nokkur áhrif á fjárhagsáætlun áranna 2024-2027. Sveitarfélögin hafa lagt til samræmingu gjaldskráa sveitarfélaganna fyrir árið 2024 sem er í samræmi við ákvörðun síðasta fundar samráðsnefndar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, einnig var fjárhagsáætlunin send til umsagnar hjá Tálknafjarðarhreppi áður en hún telst samþykkt og gert er ráð fyrir 30 m.kr. í undirbúning sameiningarinnar. Í fjárhagsáætluninni er ekki gert að öðru leyti ráð fyrir því fjármagni sem hið sameinaða sveitarfélag fær frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Rekstur A – hluta fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 157,3 millj.kr., fjármagnsliðir eru rúmar 132 millj.kr. og rekstrarniðurstaðan jákvæð um rúmar 25 millj. kr. Veltufé frá rekstri er um 201 millj. kr. Fjárfestingar eru 305 millj.kr. og afborganir langtímalána 131,7 millj.kr.

Rekstur A – og B – hluta fyrir fjármagnsliði er jákvæður um rúmar 275 millj.kr., fjármagnsliðir eru um 176 millj.kr. og rekstrarniðurstaðan jákvæð um 99,4 millj.kr. Veltufé frá rekstri er 382 millj.kr. Fjárfestingar eru 459 millj.kr., afborganir langtímalána 178 millj.kr. og lántökur 250 millj.kr.

Stærsta fjárfesting sveitarfélagsins næstu þriggja ára er bygging nýs leik- og grunnskóla á Bíldudal. Leik- og grunnskóli verður í sama húsnæði með þeirri stoðþjónustu sem þörf er á. Gert er ráð fyrir allt að 20% fjölgun leik- og grunnskólabarna í húsnæðinu. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið til notkunar haustið 2025. Á árinu 2025 er gert ráð fyrir að hafin verði vinna við leik- og grunnskólalóðina, en vinna þarf það í samræmi við framgang nýbyggingarinnar.

Á árinu 2023 var unnin hönnun á skólalóð Patreksskóla. Við hönnunina var verið að vinna með lóðina í þeim stöllum sem hún er í dag, en teiknaðar inn hugmyndir að nýjum leiktækjum, aðgengi að skólahúsnæðinu og betri nýtingu lóðarinnar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við lóðina verði teknar í nokkrum áföngum, einum áfanga á hverju ári árin 2024-2027. Á árinu 2024 er stefnt að því að bæta aðgengi að efri skólanum og fjölga leiktækjum á lóðinni. Vinna við endurbætur á húsnæði Patreksskóla heldur áfram á árinu 2024, en endurbætur á árinu 2023 tókust vel til.

Frágangur á viðbyggingunni leikskóladeildinni Króki við Araklett verður unnin áfram á árinu 2024 ásamt frágangi á lóð og lagfæringum á eldra húsnæði Arakletts. Sú framtíðarsýn er að Araklettur verði stækkaður þegar íbúafjöldi gefur til kynna að þörf er á fleiri leikskólaplássum. Tillögur hafa verið settar fram af hönnuðum um hvar sú viðbygging muni vera staðsett og verður á tímabilinu unnið að áframhaldandi hugmyndavinnu um þann áfanga.

Gatnagerð við Brunna hefst á árinu 2024, en áætlað er að framkvæmdum ljúki á árinu 2025 með malbikun. Öll grunnvinna við vegagerðina, vatnsveitu og fráveitu er áætluð á árinu 2024. Um kostnaðarsama framkvæmd og flókna framkvæmd er að ræða, því er talið best að lofa sigi að koma fram í götunni áður en hún verður malbikuð og því talið skynsamlegt að skipta framkvæmdinni í tvo áfanga.

Frágangur á nýbyggingu þjónustumiðstöðvarinnar á Bíldudal – heldur áfram á árinu 2024, en í lok árs 2023 kom nýr slökkvibíll í húsnæðið.

Fjárhagsáætlun vegna stærri hafnarmannvirkja eru unnin í samræmi við samgönguáætlun. Við gerð fjárhagsáætlunar var samgönguáætlun ekki samþykkt og í drögum að áætluninni er nýr hafnarkantur á Bíldudal ekki á áætlun 2024. Verði breyting þar á er gert ráð fyrir að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun 2024 og farið í framkvæmdina.

Ofanflóðasjóður áætlar að hönnun ofanflóðamannvirkja á Bíldudal klárist á árinu 2024 og að framkvæmdir verði hafnar. Framkvæmdin er sem fyrr á forræði sveitarfélagsins unnin í samráði við Ofanflóðasjóð.

Hér er ekki um tæmandi upptalningu á framvæmdum sveitarfélagsins heldur stiklað á stóru. Íbúar eru hvattir til að kynna sér þau gögn sem fylgja með fjárhagsáætluninni og þá sérstaklega greinagerðina bæjarstjórnar. Allar upplýsingar má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins.