Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Fjölgun smita á sunn­an­verðum Vest­fjörðum

Stað­festum covid smitum hefur fjölgað nokkuð á sunn­an­verðum Vest­fjörðum og er staðan núna sú að 22 einstak­lingar eru með stað­fest smit. Flest eru smitin á Patreks­firði. Vett­vangs­stjórn almanna­varna á sunn­an­verðum Vest­fjörðum var að ljúka fundi sínum rétt í þessu og í samráði við umdæm­is­lækni sótt­varna á Vest­fjörðum verða eftir­far­andi takmark­anir á starf­semi Vest­ur­byggðar.


Skrifað: 24. nóvember 2021

Dagana 25. og 26. nóvember fellur eftirtalin starfsemi niður, en staðan verður endurmetin á sunnudag, 28. nóvember nk.:

  • Engin starf­semi verður í Patrek­skóla, kennsla fellur niður í grunn­skól­anum, leik­skóla­deild­inni Klif, frístund og annarri íþrótt­a­starf­semi á vegum skólans.
  • Kennsla í íþrótta­skól­anum á Patreks­firði og Bíldudal fellur niður.
  • Kennsla fellur niður í Tónlist­ar­skóla Vest­ur­byggðar á Patreksfirði og Bíldudal.
  • Bóka­safn Vest­ur­byggðar á Patreks­firði verður lokað.
  • Deild FSN á Patreksfirði verður lokuð.

Þá fellur niður félagsstarf aldraðra í Eyrarseli á Patreksfirði á morgun, 25. nóvember.

Starfsemi leikskólans Arakletts á Patreksfirði er viðkvæm vegna manneklu og hvetur Vesturbyggð því þá foreldra sem hafa möguleika á að halda börnum sínum heima, að senda þau ekki á leikskólann næstu tvo daga. Þannig getum við vonandi í sameiningu tryggt áfram þjónustu leikskólans m.a. fyrir þá framlínustarfsmenn sem nú standa vaktina fyrir okkur.

Þá eru íbúar beðnir um að koma ekki í ráðhús Vesturbyggðar nema brýna nauðsyn beri til og gæta þá vel að sóttvörnum.

Áframhaldandi sýna­taka verður á vegum Heil­brigð­is­stofn­unar Vest­fjarða í Félags­heimilinu á Patreks­firði á morgun frá kl. 9:30, fimmtudaginn 25. nóvember nk. Allir íbúar með einkenni (þó þau séu lítil) eða tengsl við smitaða einstak­linga eru hvattir til að mæta í sýna­töku eftir að hafa bókað sig á Heilsu­veru. Heimsóknabann er á legudeild heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði.

Fjöldi bólusettra einstaklinga á sunnanverðum Vestfjörðum er mjög góður og því erum við í betri stöðu en við vorum fyrir ári síðan að takast á við smitin sem nú hafa komið upp. Vesturbyggð hvetur alla íbúa til að gæta að einstak­lings­bundnum sótt­vörnum, hafa hægt um sig næstu daga og standa saman eins og samfélaginu einu er lagið til að draga úr frekari hættu á útbreiðslu smita.