Fjölgun smita á sunnanverðum Vestfjörðum
Staðfestum covid smitum hefur fjölgað nokkuð á sunnanverðum Vestfjörðum og er staðan núna sú að 22 einstaklingar eru með staðfest smit. Flest eru smitin á Patreksfirði. Vettvangsstjórn almannavarna á sunnanverðum Vestfjörðum var að ljúka fundi sínum rétt í þessu og í samráði við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum verða eftirfarandi takmarkanir á starfsemi Vesturbyggðar.
Skrifað: 24. nóvember 2021
Dagana 25. og 26. nóvember fellur eftirtalin starfsemi niður, en staðan verður endurmetin á sunnudag, 28. nóvember nk.:
- Engin starfsemi verður í Patrekskóla, kennsla fellur niður í grunnskólanum, leikskóladeildinni Klif, frístund og annarri íþróttastarfsemi á vegum skólans.
- Kennsla í íþróttaskólanum á Patreksfirði og Bíldudal fellur niður.
- Kennsla fellur niður í Tónlistarskóla Vesturbyggðar á Patreksfirði og Bíldudal.
- Bókasafn Vesturbyggðar á Patreksfirði verður lokað.
- Deild FSN á Patreksfirði verður lokuð.
Þá fellur niður félagsstarf aldraðra í Eyrarseli á Patreksfirði á morgun, 25. nóvember.
Starfsemi leikskólans Arakletts á Patreksfirði er viðkvæm vegna manneklu og hvetur Vesturbyggð því þá foreldra sem hafa möguleika á að halda börnum sínum heima, að senda þau ekki á leikskólann næstu tvo daga. Þannig getum við vonandi í sameiningu tryggt áfram þjónustu leikskólans m.a. fyrir þá framlínustarfsmenn sem nú standa vaktina fyrir okkur.
Þá eru íbúar beðnir um að koma ekki í ráðhús Vesturbyggðar nema brýna nauðsyn beri til og gæta þá vel að sóttvörnum.
Áframhaldandi sýnataka verður á vegum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í Félagsheimilinu á Patreksfirði á morgun frá kl. 9:30, fimmtudaginn 25. nóvember nk. Allir íbúar með einkenni (þó þau séu lítil) eða tengsl við smitaða einstaklinga eru hvattir til að mæta í sýnatöku eftir að hafa bókað sig á Heilsuveru. Heimsóknabann er á legudeild heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði.
Fjöldi bólusettra einstaklinga á sunnanverðum Vestfjörðum er mjög góður og því erum við í betri stöðu en við vorum fyrir ári síðan að takast á við smitin sem nú hafa komið upp. Vesturbyggð hvetur alla íbúa til að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum, hafa hægt um sig næstu daga og standa saman eins og samfélaginu einu er lagið til að draga úr frekari hættu á útbreiðslu smita.