Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Flottir full­trúar í Stóru upplestr­ar­keppn­inni 2023

Stóra upplestr­ar­keppni grunn­skól­anna á sunn­an­verðum Vest­fjörðum 2023 var haldin í gær, 26. apríl, við hátíð­lega athöfn. Upples­ar­arnir stóðu sig allir með stakri prýði.


Skrifað: 27. apríl 2023

Spennan lá í loftinu í Tálknafjarðarkirkju enda höfðu upplesararnir lagt mikið á sig við undirbúninginn. Skáld keppninnar að þessu sinni voru Gunnar Helgason og Ingibjörg Haraldsdóttir. Í síðustu umferð keppninnar fluttu þeir ljóð að eigin vali, þar á meðal mátti heyra nokkur frumsamin ljóð. Nemendurnir hlutu allir viðurkenningarskjöl, blóm og bókina Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2022, að gjöf. Sólrún Elsa Steinarsdóttir og Tryggvi Sveinn Eyjólfsson fluttu tónlistaratriði með undirleik Helgu Gísladóttur.

Arna Lea Magnúsdóttir, Jörundur Garðarsson og Lilja Magnúsdóttir skipuðu dómnefndina. Dómarar réðu ráðum sínum í þónokkurn tíma en komust þó loks að sameiginlegri niðurstöðu. Í fyrsta sæti var Hildur Ása Gísladóttir úr Bíldudalsskóla, í öðru sæti var Jón Þór Hugason úr Tálknafjarðarskóla og í þriðja sæti var Victoria Rós Sæmundsdóttir úr Tálknafjarðarskóla. Þau hlutu öll gjafabréf frá Landsbankanum í verðlaun. Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Flottir fulltrúar sinna skóla píra augun á móti sólu.
Jón Þór Hugason var í öðru sæti, Hildur Ása Gísladóttir í fyrsta og Victoria Rós Sæmundsdóttir í því þriðja.
Upplesararnir
Flottir fulltrúar sinna skóla píra augun á móti sólu.