Hoppa yfir valmynd

Forseti Íslands í heim­sókn

Lítil minn­ing­ar­at­höfn verður haldin við minn­is­varða þeirra er létust í krapa­flóðinu 1983, kveikt verður á kertum og forseti Íslands, Guðni Th. segir nokkur orð.


Skrifað: 31. ágúst 2023

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kemur í heimsókn á sunnanverða Vestfirði 1.-2. september. Forsetinn byrjar heimsókn sína á að taka þátt í aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn er á Patreksfirði þessa helgina. Guðni heimsækir meðal annars Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í tilefni af 40 ára afmæli safnsins og fer í heimsókn í Selárdal að skoða verk listamannsins Samúels Jónssonar. Forsetahlaupið verður síðan haldið á Patreksfirði á laugardagsmorgun. Er þetta í annað skipti sem forsetahlaupið er haldið, en það fyrst var haldið á Álftanesi í fyrra.  

Eins og við munum eflaust flest eftir ætlaði Guðni Th. að vera viðstaddur minningarathöfn vegna krapaflóðanna 23. janúar sl., þegar minnst var þeirra sem létust í krapaflóðinu 40 árum fyrr. Vegna útkalls Landhelgisgæslunnar urðu breytingar á fyrirætlunum forsetans. Í dagskrá forseta er áætluð lítil og lágstemmd athöfn við minnisvarðann um þau sem létust í krapaflóðinu, kveikt verður á kertum og forsetinn mun segja nokkur orð. Athöfnin verður haldin kl. 18:00 á morgun föstudag og eru öll velkomin. 

Vonumst við til að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir að þessu sinni svo forsetinn geti átt ánægjulegar stundir með okkur íbúum Vesturbyggðar og gestum aðalfundar Skógræktar Íslands.