Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 4 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Frá bæjar­stjóra

Bæjar­stjórinn í Vest­ur­byggð, Rebekka Hilm­ars­dóttir, hvetur íbúa alla til að sýna þessu vanda­sama verk­efni sem baráttan við COVID-19 er, virð­ingu. Enn hefur ekkert smit verði stað­fest á Vest­fjörðum en allir þurfa samt að gæta varkárni í samskiptum og fara eftir fyrir­mælum fagfólks.


Skrifað: 15. mars 2020

Fréttir

Kæru íbúar

Það eru sannarlega skrýtnir tímar sem við tökumst á við þessa dagana. Samkomubann tekur gildi á miðnætti í kvöld og verður í gildi til 13. apríl nk. Markmið þess og takmörkun á skólastarfi er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu kórónaveirunnar/COVID-19.

Ég hvet íbúa alla til að sýna þessu vandasama verkefni virðingu. Enn hefur ekkert smit verði staðfest á Vestfjörðum en við þurfum samt að gæta varkárni í samskiptum okkar og fara eftir fyrirmælum fagfólks. Við erum öll almannavarnir og það er í okkar höndum að lágmarka áhrif þessa faraldurs. Það er því mikilvægt að við hálpumst að og ég er þess sannfærð að okkar öfluga samfélag mun, eins og ávallt, standa saman í að takast á við þetta verkefni.

Skóla- og frístundastarf

Ég fundaði með skólastjórnendum um helgina og verður starfsdagur leik- og grunnskóla á morgun nýttur til að vinna að nánari útfærslu og skipulagi fyrir starfsemi skólanna næstu vikur. Samkomubannið mun einnig hafa áhrif á íþróttamiðstöðvarnar Bröttuhlíð og Byltu og verða þær stofnanir sveitarfélagsins því einnig lokaðar á morgun, 16. mars.

Vesturbyggð vinnur að útfærslu og skipulagi á skóla- og frístundastarfi í samræmi við tilmæli og leiðbeiningar Landlæknis, sóttvarnarlæknis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Leik- og grunnskólar munu upplýsa foreldra um nánari útlistun á skólastarfinu á morgun.

Skilningur og þolimæði

Ljóst er að samkomubannið mun hafa veruleg áhrif á starfsemi leik- og grunnskóla og biðjum við foreldra að fylgjast vel með tilkynningum á heimasíðum og facebook síðum skólanna. Við biðjum foreldra einnig um að búa sig undir það að skólahald verður mikið breytt næstu vikurnar og sýna því þolimæði og skilning að á þessum tímum geta hlutirnir breyst hratt og með mjög stuttum fyrirvara.

Létt á leikskólunum okkar

Ég vil biðja þá foreldra leikskólabarna í Vesturbyggð, sem mögulega eru í þeirri aðstöðu að geta haldið börnum sínum heima, að gera það á meðan samkomubannið er í gildi og láta leikskólastjóra vita sem fyrst um slíkar ákvarðanir. Það myndi létta á leikskólunum okkar og auðvelda skipulag. Vistunargjöld verða felld niður þann tíma sem foreldrar eru með börn sín heima.

Gleðin

Að lokum vil ég biðja ykkur um að muna eftir gleðinni og glensinu á þessum tímum, það er okkur öllum bráðnauðsynlegt á tímum sem þessum.