Hoppa yfir valmynd

Fræðslu­ferð ráðhúss til Bergen

Starfs­menn ráðhúss Vest­ur­byggðar og Tálkna­fjarð­ar­hrepps fóru í náms­ferð til Noregs til kynna sér samein­ingar sveit­ar­fé­laga í aðdrag­anda þess nýtt sveit­ar­félag verður til með samein­ingu fram­an­greindra tveggja sveit­ar­fé­laga þann 19. maí.


Skrifað: 12. apríl 2024

Fréttir

Starfsfólk fær styrk frá stéttarfélögum sínum til námsferða og er þetta fyrsta námsferð starfsmanna ráðhúsanna í langan tíma. Við erum öll sammála um að ferðin hafi verið mjög fræðandi og hafi tengt hópinn vel saman og er ég þess full viss að ekki líði mörg ár þar til ákveðið verði að hópurinn fari í aðra námsferð.  

Námsferðir eru bæði til að fræðast um tiltekin málefni en jafnframt til að styrkja tengsl og traust starfsfólks. Starfsfólk ráðhúsa sveitarfélaganna þarf að vinna þétt saman næstu mánuðina og árin til að sameiningin gangi vel enda mörg verkefni sem fylgja sameiningunni sem varða stjórnsýsluna og verkefni ráðhúss.  

Við heimsóttum tvö sveitarfélög í vestur Noregi, í námunda við Bergen. Sveitarfélögin urðu til við sameiningu sveitarfélaga árið 2020. Fyrsta heimsóknin okkar var til Voss Herad sem varð til við sameiningu Voss Kommune og Gravin Herad. Hér er um að ræða sameiningu sem er svipuð sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps þó að íbúatölur séu ívið hærri. Íbúar Voss Kommune voru 14 þúsund fyrir sameingu en íbúar Gravin Herad voru um 1 þúsund. Síðari heimsóknin var til Alver Kommune, Alver varð til þegar Lindås, Radøy og Meland sameinuðust. Íbúar Alver eru núna um 30 þúsund manns, en sveitarfélögin höfðu 5-15 þúsund íbúa fyrir sameiningu.  

Í báðum sveitarfélögunum var talað um mikilvægi þess að horfa á nýtt sveitarfélag sem nýtt upphaf. Það taki tíma að búa til nýtt sveitarfélag, en eitt af því mikilvægasta væri að byggja upp traust meðal samstarfsfólks með áherslu á hvað við getum gert saman.  

Við þökkum bæjarstjórum og öðru starfsfólki Voss og Alver kærlega fyrir frábærar móttökur. Það var virkilega vel tekið á móti okkur og vel undirbúið hjá báðum sveitarfélögum. Við komumst að því að það eru alveg sömu áskoranir og tækifæri við sameiningar sveitarfélag í Noregi og á Íslandi og því margt sem við getum tekið með okkur í vinnuna sem framundan er við að búa til nýtt sveitarfélag á Sunnanverðum Vestfjörðum.  

Sameinað sveitarfélag – sterkari saman var samhljómur meðal allra sveitarfélaganna, okkar, Voss og Alver.  

 

Hlýjar móttökur í Alver