Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Fyrsta dagbók bæjar­stjóra

Fyrstu vikurnar í starfi bæjar­stjóra byrjuðu mjög óhefð­bundið.


Skrifað: 28. september 2022

Dagbók bæjarstjóra

Fundur með ríkisstjórn

Fyrsti formlegi dagurinn minn sem nýs bæjarstjóra hófst á heimsókn ríkisstjórnarinnar til Vestfjarða, þar sem sveitarstjórar og sveitarstjórnarfulltrúar landssvæðisins funduðu með öllum ráðherrum landsins. Fundurinn sýndi mikla samstöðu sveitarfélaganna í helstu meginatriðum sem eru samgöngumál, tekjur sveitarfélaganna og innviða uppbyggingu. Yfirskrift fundarins var „Aflstöðin Vestfirðir“ sem mér þykir mjög lýsandi fyrir Vestfirði og Vestfirðinga.

Þann sama dag var útsýnispallurinn á Bolafjalli vígður, en útsýnispallurinn er dæmi um vel heppnað verkefni sveitarfélags sem er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Bæjarstjóri á Bolafjalli

Fundur með matvælaráðherra og forsætisráðherra

Matvælaráðherra og forsætisráðherra funduðu síðan með fulltrúum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps í ráðhúsinu á Patreksfirði og má segja að þetta hafi verið framhaldsfundur frá fundinum deginum áður þar sem við fórum nánar í áherslur og áskoranir sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarstjóri fylgdi síðan forsætisráðherra í heimsókn í Patreksskóla og á Muggsstofu.

Forsætisráðherra heimsótti Patreksskóla

Fjórðungsþing

8.-10. september var haldið fjórðungsþing Vestfjarðarstofu að hausti þar sem saman komu fulltrúar allra sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Á fjórðungsþinginu var rætt um Samstarf sveitarfélaganna á Vestfjörðum, farið yfir sóknaráætlun Vestfjarða og afgreiddar voru sameiginlegar tillögur sveitarfélaganna. Það er alltaf mikilvægt að hitta fulltrúa sveitarfélaganna ekki síður í upphafi kjörtímabils og þá sérstaklega fyrir mig við upphaf starfs. Það var gaman að upplifa þann kraft sem var á þinginu og jákvæða stemningu. Ég fékk það enn fremur staðfest að ég þekki mikið af því fólki sem starfar á þessum vettvangi bæði frá störfum mínum hjá Ísafjarðarbæ og eftir það.

Vesturbyggð tók síðan á móti þinggestum og fórum við með þeim í vélsmiðjuna Loga, í Ólafshús, skoðuðum nýja gistiheimilið í Pálshúsi og þær framkvæmdir sem eru í gangi í Vatneyrarbúð þar sem við ræddum áætlaða framtíðarnýtingu húsnæðisins. Gingi arkitekt fór með okkur og fræddi okkur um sögu þessara húsa og verslun á Patreksfirði, sem var virkilega fróðlegt. Að endingu fórum við á Flak og fengum kynningu á þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Í tengslum við fjórðungsþingið fundaði ég með Sigríði Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra Vestfjarðarstofu og Guðrúnu Önnu Finnbogadóttur verkefnastjóra þar sem farið var yfir helstu verkefni Vestfjarðarstofu á svæðinu. Enn fremur hélt Díana Jóhannsdóttir kynningu fyrir bæjarfulltrúa um verkefni Markaðsstofu Vestfjarða.

Bæjarstjórn ásamt Gerði og Þórdísi

Heimsókn nýnema Háskólaseturs Vestfjarða

Ég tók á móti nýnemum Háskólaseturs Vestfjarða í Vatneyrarbúð, þar sem ég sýndi þeim mögulega framtíðaraðstöðu þeirra til lokaverkefna í skólanum. Ég vona svo sannarlega að við fáum einhver þeirra til okkar innan skamms í slík verkefni, en það yrði mikill akkur fyrir okkur að fá fólk til okkar í rannsóknarvinnu á háskólastigi

 

Nemendur í heimsókn í Vatneyrarbúð

Fundir nefnda og ráða

Síðustu tvær vikurnar hef ég fundað með nær öllum nefndum og ráðum sveitarfélagsins, en ég tel mikilvægt að ég fylgist með verkefnum allra nefnda að einhverju leyti og kynnist jafnframt nefndarfólki.

Á fund bæjarráðs mættu fulltrúar íbúa á Krossholtum til að ræða málefni Hitaveitu á Krossholtum og var starfsfólki sveitarfélagsins falið að skoða lausnir á málinu. Kristín Andrea fulltrúi Skjaldborgarhátíðarinnar mætti jafnframt til fundar við bæjarfulltrúa, þar sem hún lýsti yfir áhyggjum hátíðarinnar af skorti á gistiplássi í kringum hátíðina.

Á fundi fræðslu- og æskulýðsráðs fór Kristrún Lind sérfræðingur í skólamálum yfir skólastefnu Vesturbyggðar og hlutverk ráðsins í innleiðingu og eftirliti með henni.

Á fundi menningar- og ferðamálaráðs voru lagðar fyrir styrkumsóknir fyrir þriðju úthlutun ársins 2022 og var úthlutað 330 þúsund krónum til fjögurra mismunandi verkefna. Á fundinum var starfsmanni ráðsins, Valgerði Maríu Þorsteinsdóttur, nýráðnum menningar- og ferðamálafulltrúa falið að koma með hugmynd að þróun stefnu í menningarmálum fyrir Vesturbyggð með framtíðarsýn sveitarfélagsins í huga.

Bæjarstjórnarfundur

Fundur með fyrrverandi bæjarstjóra

Mér þótti virkilega vænt um að taka á móti Rebekku Hilmarsdóttur fyrrverandi bæjarstjóra þar sem hún afhenti mér formlega embættið á fundi okkar. Við áttum stuttan fund, en það er margt sem ég get lært af henni og verður gott að geta leitað til hennar í framtíðinni. Takk fyrir þitt flotta framlag til bæjarfélagsins Rebekka.

Rebekka og Þórdís

Heimsóknir í stofnanir og fyrirtæki

Ég er byrjuð að heimsækja fyrirtæki og stofnanir í Vesturbyggð og er að skipuleggja næstu vikur með það verkefni í huga. Mig langar að hitta sem flesta atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi aðila, kynna mig og kynnast þeim. Við vinnum saman að því að búa til gott sveitarfélag.

Arnarlax

Ég hef þegar átt nokkra fundi með Arnarlax og er ánægjulegt að kynnast þeirri umfangsmiklu starfsemi sem það eru með í sveitarfélaginu. Viljayfirlýsing var undirrituð í apríl um áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins í sveitarfélaginu og höfum við nú tekið upp boltann frá því sem frá var horfið.

Húsnæðismál leikskólans Arakletts

Mikill tími hefur farið í það hjá breiðum hópi stafsfólks Vesturbyggðar að skoða hvaða leiðir er hægt að fara í við stækkun á Arakletti. Sú ánægjulega þróun hefur verið á Patreksfirði að leikskólinn okkar er að fyllast af börnum og því mikilvægt að skoða lausnir við að fjölga leikskólaplássum. Í þessari viku verður tekið til afgreiðslu tillaga um að setja upp svokallaðar ævintýraborgir við leikskólann, en þær eru í færanlegu húsnæði sem er sérstaklega útbúin með starfsemi leikskóla í huga, þarfir barna og starfsfólks.

Úttekt á heilnæmi húsa í eigu Vesturbyggðar

Í lok síðustu viku voru niðurstöður Eflu verkfræðistofu kynnt fyrir bæjarráðsfulltrúum, bæjarstjóra og starfsfólki stjórnsýslu. Í kjölfar fundarins voru ræddar þær ráðstafanir sem þyrfti að grípa til. Fundað með skóastjóra Bíldudalsskóla í gær og starfsfólki strax í kjölfarið. Í ljós kom töluverður raki og myglublettir á takmörkuðum svæðum. Þau svæði sem mygla greindist á hafa ekki verið íverustaðir nemenda og hluti af þeim svæðum voru þegar lokaðar þegar rannsókn var gerð. Niðurstaðan var í gær að hafa skólann lokaðan í dag á meðan starfsfólk inni að nýju skipulagi og að því að undirbúa nýtt húsnæði. Ekki hefur verið tekið ákvörðun um hvernig staðið verði að úrbótum Bíldudalsskóla, en það verður unnið í samráði við Eflu verkfræðisstofu.

Forstöðumönnum annarra stofnana hefur verið kynnt niðurstaða rannsókna Eflu, en ekki er um jafn viðamiklar og brýnar aðgerðir að ræða í þar, en þetta eru Araklettur, Tjarnabrekka og Patreksskóli.

Enn fremur var íbúðarhúsnæði sveitarfélagsins í Kambi tekið út. Viðgerðir þurfa að fara fram sem hefur áhrif á tvær íbúðir í húsnæðinu, en íbúum þeirra hefur þegar verið kynnt niðurstaðan.

Við erum að vinna að þeim málum sem þarf að bregðast hratt og vel við, þar er forgangsröðunin.

Látrabjarg

Önnur verkefni

Farið var yfir aðgerðaráætlun um endurskoðun persónuverndar sveitarfélagsins, en m.a. er áætlað að allir starfsmenn sveitarfélagsins fá fræðslu í málefnum persónuverndarlaga til að við getum tryggt sem bestu meðferð persónuupplýsinga þjónustuþega okkar og starfsfólks.

Við áttum fund með Vegagerðinni vegna áframhaldandi þátttöku þeirra í tómstundarútunni milli byggðakjarna sunnanverðra Vestfjarða.

Fundað hefur verið útaf stofnun umdæmisráðs landsbyggðarinnar sem liðar í innleiðingu farsældarlaganna.

Íbúafundur vegna fyrirhugaðrar færslu sorpsöfnunarsvæðisins utan við Fjósadal á Patreksfirði sem er í samræmi við aðalskipulag  færslu sorpmóttökustöðvar. Vel var mætt á fundinn og unnið er úr þeim umræðum og tillögum sem ræddar voru á fundinum.

Fjósadalur