Hoppa yfir valmynd

Fyrstu fundir heima­stjórna og nýr ritari þeirra

Heima­stjórnir Arnar­fjarðar, Tálkna­fjarðar, Patreks­fjarðar og fyrrum Barða­strand­ar­hrepps og Rauðasands­hrepps hafa nú lokið sínum fyrstu fundum.


Skrifað: 12. júlí 2024

Af málum sem hafa verið tekin fyrir eru meðal annars viðhaldsþörf í Tálknafirði og á Tálknafjarðarhöfn, umsókn um leyfi fyrir auglýsingaskiltum á Patreksfirði, framtíðarmöguleikar fyrir tjaldsvæði á Bíldudal og höfnun umsóknar Vesturbyggðar í framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir verkefninu Bygging aðstöðuhúss við Laugarneslaug. Auk þess hafa ýmis mál sem snerta þeirra heimasvæði verið kynnt fyrir heimastjórnunum. Fundargerðir má finna í hlekkjunum hér að neðan.

Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðinn ritari heimastjórna og hóf hún störf í júní. Hún heldur utan um störf heimastjórna, ritar fundargerðir og fylgir málum þeirra eftir. Lilja er skógfræðingur að mennt, hefur haldgóða reynslu af sveitarstjórnarmálum, meðal annars sem oddviti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps, og hefur starfað í ýmsum ráðum og nefndum. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.

Frá vinstri: Lilja Magnúsdóttir starfsmaður heimastjórna, Páll Hauksson varamaður sem kom inn fyrir Gunnar Sean Eggertsson, Rebekka Hilmarsdóttir formaður og Tryggvi B. Baldursson fulltrúi bæjarstjórnar.
Fyrsti fundur heimastjórnar Patreksfjarðar
Frá vinstri: Lilja Magnúsdóttir starfsmaður heimastjórna, Páll Hauksson varamaður sem kom inn fyrir Gunnar Sean Eggertsson, Rebekka Hilmarsdóttir formaður og Tryggvi B. Baldursson fulltrúi bæjarstjórnar.

Hvað eru heimastjórnir?

Samhliða kosningum til sveitarstjórnar nýs sameinaðs sveitarfélags þann 4. maí síðastliðinn voru fulltrúar kosnir í heimastjórnir. Heima­stjórnir eru fasta­nefndir innan sameinaðs sveit­ar­fé­lags sem starfa í umboði sveit­ar­stjórnar. Mark­miðið með heima­stjórnum er að heima­menn hafi aðkomu að ákvörð­unum sem varða nærum­hverfi sitt og geta ályktað um málefni sem snýr að viðkom­andi byggð­ar­lagi og komið málum á dagskrá bæjar­stjórnar. Í hverri heima­stjórn eru þrír full­trúar, tveir sem kosnir eru sérstak­lega samhliða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum og einn bæjar­full­trúi. Heimastjórnirnar eru fjórar, það eru heimastjórn Arnarfjarðar, heimastjórn Tálknafjarðar, heimastjórn Patreksfjarðar og heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps.