Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Grennd­arkynning - Balar 2 Patreks­firði

Á 93. fundi skipu­lags- og umhverf­is­ráðs sem haldinn var 10. mars s.l. var samþykkt að grennd­arkynna bygg­ingaráform við Bala 2 í samræmi við ákvæði 44. gr. skipu­lagslaga nr. 123/2010. Þá er samhliða grennd­arkynnt úthlutun lóðar­innar sem samþykkt var á 365. fundi bæjar­stjórnar Vest­ur­byggðar þann 25. nóvember 2021.


Skrifað: 22. mars 2022

Skipulög í auglýsingu

Grenndarkynning felst í því að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að tjá sig um breytingar í þegar byggðu hverfi þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.  Hjálagt eru teikningar og frekari upplýsingar um áformin.

Á fyrrgreindum fundi var eftirfarandi bókað undir 1. fundarlið:

Erindi frá Skemman Vatneyri ehf, dags. 6. mars 2022. Í erindinu er sótt um samþykki byggingaráforma fyrir tveimur fjölbýlishúsum við Bala 2, Patreksfirði. Um er að ræða tvö fjölbýlishús, bæði á tveimur hæðum með samtals 15-20 íbúðum. Áætluð stærð íbúða er á bilinu 40-90 m2. Erindinu fylgja teikningar unnar af Pro-Ark teiknistofu, dags. 4.mars 2022.

Til leiðréttingar þá er lóðin sem um ræðir Balar 2, ekki Balar 1-2 eins og framkvæmdaraðila hafði verið kynnt áður og hafði verið samþykkt á 90. fundi skipulags- og umhverfisráðs og 365. fundi bæjarstjórnar.

Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir byggingaráformin með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu grenndarkynningar. Skipulags- og umhverfisráð óskar eftir því við framkvæmdaraðila að frekari gögn verði útbúin fyrir grenndarkynninguna, svo sem ásýndarmynd þar sem húsið gæti haft áhrif á útsýni.

Ráðið felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna framkvæmdina fyrir eigendum fasteignanna að Bölum 4-6, 13, 15 og 17, Aðalstrætis 87a, 89,90, 92 og 97, Sigtúns 37, 49 og 57 og Brunnar 10, 12 og 14.

Þá bókaði bæjarstjórn eftirfarandi um málið á 369 fundi sínum þann 16. mars s.l. undir 14. fundarlið:

JÁ og ÞSÓ viku af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis við afgreiðslu bókunar á lið 14.1.

Lögð fram til kynningar fundargerð 93. fundar skipulags- og umhverfisráðs, fundurinn var haldinn 10. mars 2022. Fundargerðin er í 6 liðum.

Til máls tóku: Varaforseti, GE, FM og ÁS.

GE lagði fram eftirfarandi bókun undir lið 14.1

„Ég fagna framkomnum metnaðarfullum byggingaráformum er varðar lóðina við Balar 1-2. En þar sem um verulegt byggingarmagn er að ræða myndi ég vilja grenndarkynna þetta fyrir fleiri húsum en þeim sem eru upptalin í bókuninni. Þannig að þetta verði kynnt líka fyrir íbúa raðhúsanna amk. fyrstu 2 íbúðum í hverju raðhúsi sem hafa þetta í sjónlínu. Vil ég líka taka undir bókun nefndarinnar er varðar ítarlegri gögn og að þau gögn sem verða grenndarkynnt , sýni þá þakgerð og hæð húsa sem verður endanleg á húsunum. Þannig að ekki sé leyfilegt að hækka húsin meira en því nemur, sbr fyrirvaran sem framkvæmdaraðili gefur sér í greinargerð að breyta þakgerð við lokahönnun. Það er óásættanlegt ef fengist að hækka þakið eftir kynninguna, sú teikninig sem liggur fyrir þessum fundi var með flötum þökum og hæðarlínur skv. því. Ef ætlun er að hækka það, skuli það kynnt nærliggjandi íbúðum þannig.“

Undir lið 14.1 leggur bæjarstjórn til eftirfarandi viðbót við bókun skipulags- og umhverfisráðs að grenndarkynning á framkvæmdunum Bölum 2, Patreksfirði verði einnig kynnt eigendum fasteigna að Sigtúni 57-65, 49-55, 37-45, 29-33 sem og að byggingaáformin verði kynnt vel á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða

JÁ og ÞSÓ komu aftur inná fundinn.

Frestur til að skila athugasemdum og ábendingum er 4 vikur, þ.e. til og með 22. apríl 2022. Litið verður svo á að þeir sem ekki gera athugasemdir séu samþykkir áformunum.

Bent skal á að leigutakar húsnæðis á ofangreindum lóðum teljast einnig til hagsmunaaðila og skulu húseigendur kynna tillöguna fyrir þeim.

Nánari upplýsingar veitir byggingarfulltrúi á skrifstofu Vesturbyggðar eða í síma 450 2300 á opnunartíma skrifstofunnar, virka daga kl. 10-12.30 og 13-15. Fyrirspurnir má einnig senda á netfangið vesturbyggd@vesturbyggd.is.

Vakin er athygli á því að athugasemdir teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og birtast meðal annars nöfn bæjarbúa í fundargerðum skipulags- og umhverfisráðs á netinu.

Athugasemdum má skila á vesturbyggd@vesturbyggd.is eða í bréfpósti, þá merkt:

Vesturbyggð
Aðalstræti 75
450 Vesturbyggð 

Athugasemdum skal skila inn fyrir 22. apríl 2022

Skipulagsfulltrúi

Óskar Örn Gunnarsson
oskar@landmotun.is / 575 5300