Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Guðný Gígja Skjald­ar­dóttir er bæjarlista­maður Vest­ur­byggðar 2023

Guðný Gígja Skjald­ar­dóttir hefur hlotið nafn­bótina bæjarlista­maður Vest­ur­byggðar 2023. Hún er vel að verð­laun­unum komin.


Skrifað: 18. júlí 2023

Gígja, eins og hún er jafnan kölluð, hóf listferill sinn í heimabæ sínum á Patreksfirði þar sem hún kom reglulega fram á hinum ýmsu viðburðum og söng og spilaði á gítar. Árið 2008 var Gígja einn af stofnendum hljómsveitarinnar Ylju þar sem hún syngur með Bjarteyju Sveinsdóttur. Fyrsta plata hljómsveitarinnar, Ylja, kom út árið 2012 og vakti mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis. Önnur plata hljómsveitarinnar, Commotion, kom út tveimur árum seinna. Á þessum tveimur plötum sömdu Gígja og Bjartey ljóð og lög. Árið 2018 kom út þriðja breiðskífa hljómsveitarinnar, Dætur, þar sem þær fluttu íslenska þjóðlagasöngva eins og Hættu að gráta hringaná og Bíum, bíum, bambaló.

Tónlist Ylju einkennist af þjóðlagahefð og draumkenndum söng Gígju og Bjarteyjar. Uppruni Gígju á sunnanverðum Vestfjörðum hefur litað lögin og textana sem hún hefur samið, þar má meðal annars nefna lögin Hlaðseyri og Á rauðum sandi. Þær stöllur hafa hlotið tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna, meðal annars hafa þær báðar verið tilnefndar sem söngkona ársins. Ylja hefur reglulega spilað í Vesturbyggð, þar má sérstaklega nefna hugljúfa jólatónleika sem hljómsveitin hélt mörg ár í töð. Auk þess hefur hljómsveitin Ylja eða Gígja sjálf margsinnis komið fram í einkasamkvæmum jafnt sem almenningsviðburðum á svæðinu.

Gígju er fleira til lista lagt og hefur meðal annars starfað sem ljósmyndari. Hún nam við Ljósmyndaskóla Íslands og hefur fengist við ýmis verkefni tengd ljósmyndun hér á svæðinu. Hún hefur meðal annars sett upp ljósmyndasýningu þar sem hún endurvann myndir frá Ljósmyndasafni V-Barðastrandarsýslu, ásamt því að taka ljósmyndir fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Hún hefur einnig sinnt sýningarstjórn við nokkrar ljósmyndasýningar sem hafa verið settar upp á FLAK. Ljósmyndir Gígju einkennast af næmu auga fyrir hinu persónulega og listfenga í daglegu lífi.

Síðast en ekki síst þá hafa Gígja og maðurinn hennar, Einar, stutt dyggilega við lista- og menningarlífið á svæðinu með rekstri listhneigða samkomuhússins FLAK á Patreksfirði. Þar hafa listamenn frá svæðinu og annars staðar frá fengið að halda listsýningar, tónleika og viðburði.

Bæjarstjóri afhenti Gígju verðlaunaskjöld sem vott um nafnbótina í dag. Gígja var fjarverandi þegar tilkynnt var um niðurstöðurnar á hátíðarhöldum 17. júní, en Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Við óskum Gígju innilega til hamingju með nafnbótina.

Bæjarstjóri afhendir Gígju verðlaunaskjöldinn.

Menningar- og ferðamálafulltrúi

VMÞ

muggsstofa@vesturbyggd.is/+354 450 2335