Hoppa yfir valmynd

Hvað er að frétta af áhalda­húsinu á Bíldudal?

Arnþór Ingi Hlynsson, eða Addi eins og hann er jafnan kall­aður, stendur vaktina í áhalda­húsinu á Bíldudal. Í liðnum Hvað er að frétta? þessa vikuna heyrum við um nýtt áhaldahús og enda­lausa verk­efna­lista Adda og þarf­asta þjónsins Fíónu.


Skrifað: 16. apríl 2024

Fréttir

Verkefni áhaldahússins eins og víðast hvar eru mörg, fjölbreytt og árstíðabundin. Á veturna fer mestur tími í að moka – enda Bíldudalur líklega með best mokuðu bæjum á landsvísu – ná frosti úr lögnum og hengja upp jólaskreytingar en nú þegar byrjað er að vora er hægt að sópa götur, hreinsa til í bænum og gera hann fallegan. Vinnuskólinn byrjar í júní og það kemur í hlut áhaldahúss að setja þeim fyrir verkefni, til dæmis að gróðursetja, slá gras og mála. Af öðrum verkefnum má nefna áramótabrennuna, aðstoð við Bíldudalsskóla og Muggsstofu, stíflulosun og fleira. Þá vinnur Addi verkefnin gjarnan með Hlyni Aðalsteinssyni, hafnarverði á Bíldudalshöfn, en þeir eru ekki bara vinnufélagar heldur líka feðgar.

Nýtt áhaldahús

Senn verður nýtt áhaldahús á Bíldudal tekið í notkun en það verður í sama húsnæði og ný slökkvistöð. Vonast er til að hægt verði að flytja inn með sumrinu. Húsnæðið verður sannkölluð bylting fyrir starf áhaldahússins, en eins og staðan er í dag er starfsstöðin dreifð á fimm staði, það er í Baldurshaga, áhaldahúsbílnum, gámum, gömlu slökkvistöðinni og undir berum himnum. Þá er kaffiaðstöðu ábótavant, skrifstofa óviðunandi og lítil sem engin verkstæðaaðstaða til að smíða o.fl.

Með auknu geymsluplássi, almennilegu verkstæði, góðri skrifborðsaðstöðu og kaffiaðstöðu verður nýtt áhaldahús með þeim flottari á landinu. Þá getur Addi farið að smíða og laga hluti sem hafa þurft að sitja á hakanum vegna ófullnægjandi aðstöðu. Hann lofar að leyfa bæjarbúum að sjá húsnæðið þegar það verður tilbúið.

Addi leggur áherslu á að vera aðgengilegur íbúum á Bíldudal og vill koma því á framfæri að þeir geti alltaf talað við hann á vinnutíma. Hann reynir að redda málum eftir fremsta megni.

Feðgarnir Hlynur og Addi