Hoppa yfir valmynd

Hvað er að frétta af ráðhúsinu?

Í ráðhúsi sveit­ar­fé­lagsins á Patreks­firði starfa 13 manns með ólíkan bakgrunn og hlut­verk. Þessa dagana eru verk­efni tengd samein­ingu Vest­ur­byggðar og Tálkna­fjarð­ar­hrepps ofar­lega á baugi og því ætlar hópurinn, ásamt skrif­stofu Tálkna­fjarð­ar­hrepps, að leggja land undir fót í apríl og heim­sækja nýlega sameinuð sveit­ar­félög í Noregi.


Skrifað: 8. mars 2024

Fréttir

Starfsfólkið ætlar til Bergen í apríl, með millilendingu í Osló, og ætla nokkrir makar að skella sér með. Sveitarfélögin sem verða heimsótt eru Voss, sem sameinaðist sveitarfélaginu Granvin árið 2020, og Alver, sem varð til árið 2020 við sameiningu Lindås, Radøy og Meland. Norðmennirnir hafa tekið virkilega vel í að fá hópinn í heimsókn og ætla að miðla þekkingu sinni og reynslu af sameiningu og áhrif hennar á starf ráðhúss. Sótt verður um styrk til verkalýðsfélaganna fyrir ferðinni.

Noregur varð fyrir valinu því sveitarfélögin þar eru hvað líkust okkar, bæði hvað varðar hlutverk og ábyrgð þeirra og eins því landslagið og atvinnulífið í Vestur-Noregi líkist okkar á sunnanverðum Vestfjörðum hvað mest. Þá hafa Norðmenn getið sér orðspors sem einstaklega góðir gestgjafar.

Tilgangurinn með ferðinni er þó ekki aðeins að verða betur að okkur í sameiningarmálum, hann er ekki síður að hrista hópinn saman og hafa gaman. Starfshópurinn vinnur að mjög ólíkum verkefnum og því er mikilvægt að halda þétt utan um hann. Af öðru skemmtilegu sem starfsmannafélagið hefur staðið að má nefna Gyllta gatarann sem eru skrifstofuólympíuleikarnir okkar, hádegis-Kahoot og göngu í Surtarbrandsgil.

Hvað er að frétta? er nýr liður á heimasíðunni þar sem birtar verða fréttir frá starfsstöðvum og stofnunum sveitarfélagsins.

 

 

Starfsfólk ráðhússins á öskudaginn