Hoppa yfir valmynd

Hvað er að frétta af tónlist­ar­skól­anum?

Tónlist­ar­skóli Vest­ur­byggðar er starf­ræktur á Patreks­firði og Bíldudal.


Skrifað: 10. apríl 2024

Fréttir

Við skólann starfa nú sjö kennarar, Alejandra, Biggi Baldurs, Biggi Þóris, Camille, Helga, Jón Hilmar og Kristín Mjöll. Kennt er á fiðlu, gítar bassa, ukulele, píanó, slagverk, þverflautu, klarinet, saxófón og básúnu. Söngkennsla er hafin aftur og í boði eru forskóli og blokkflautukennsla fyrir 5-8 ára börn.

Þrír kennarar kenna næstum eingöngu í fjarkennslu, Biggi Baldurs, Biggi Þóris og Jón Hilmar. Gaman er að segja frá því að Tónlistarskóli Vesturbyggðar er nú orðinn þar í fararbroddi. Í vetur höfum við bætt við okkur búnaði sem bætir gæði fjarkennslunnar. Fyrst var það Biggi Þóris sem kom inn með nýjungar fyrir píanókennslu. Síðar var keyptur búnaður sem gerir Bigga Baldurs trommukennara kleyft að spila með nemendum sínum í rauntíma þrátt fyrir að hann sé staddur á Eskifirði. Ekki er vitað til þess að nokkur annar tónlistarskóli á Íslandi noti þennan splunkunýja búnað og höfum við smátt og smátt verið að bæta aðstöðuna þannig að allt virki sem best.

Nemendur Patreksskóla koma flestir í tónlistarskólann á skólatíma. Við byrjum daginn um kl. 9-10 með kennslu á hin ýmsu hljóðfæri, ýmsist í staðkennslu eða fjarkennslu. Deginum okkar lýkur oftast um kl. 15-16 en eldri nemendur koma gjarnan í tíma eftir skóla. Vegna aðstæðna er að mestu kennt utan skólatíma á Bíldudal. Flestir nemendur koma í einkatíma en sumir koma í hóptíma eins og í blokkflautukennslunni.

Tónlæsi eru líka hóptímar sem við erum núna farin að bjóða öllum aldurshópum upp á. Við erum að þróa okkar eigin stíl við tónfræðikennslu þannig að nemendur öðlist betri skilning á nótnalestri og grunnstoðum tónlistarinnar, og læri að nýta þá þekkingu til að spinna og búa til sína eigin tónlist.

Við leggjum áherslu á hljómsveitarstarf og æfir a.m.k. ein hljómsveit að staðaldri í skólanum sem Jón Hilmar hefur stýrt í vetur. Alls komu fram þrjár mismunandi hljómsveitir á miðannartónleikunum í mars. Við fögnum því að undanfarið hafa jafnframt komið fram sjálfsprottnir hópar nemenda sem eru að æfa sig í að spila saman í hljómsveit og semja tónlist. Alejandra tók við skólakórnum í febrúar og verður spennandi að sjá afraksturinn af því starfi þegar fram í sækir.

Vorvertíðin í tónlistarskólanum eru framundan. Er þar fyrst að nefna Nótuna 2024, uppskeruhátið tónlistarskóla, sem mun fara fram á Akranesi 13. apríl fyrir tónlistarskóla á Vesturlandi og Vestfjörðum. Einar Antoni Ostaszewski mun koma fram fyrir okkar hönd að þessu sinni og leika á gítar ásamt Jóni Hilmari. Þá mun tónlistarskólinn standa fyrir spunasmiðju þann 23. apríl í samvinnu við Bókasafn Patreksfjarðar á barnamenningarhátiðinni Púkanum. Örfáir nemendur taka þátt í landsmóti Skólahljómsveita í Kópavogi 10.-12. maí og svo verða vortónleikar skólans haldnir í Baldurshaga og FHP 14.-15. maí. Vortónleikarnir eru okkar uppskeruhátið og koma allir nemendur skólans þar fram og leika það sem þeir hafa æft með kennurunum sínum.

Fagmennska, samvinna og starfsánægja eru leiðarljósin í okkar starfi því án þeirra væri ekki eins gaman í vinnunni. Við leggum áherslu á að kenna nemendum fjölbreytta tónlist, klassík, popp og rokk, jafnvel heimstónlist. Við leggjum líka metnað í að nemendur fái fjölda tækifæra til að koma fram á tónleikum, taki þátt í skapandi starfi, samspili og hljómsveitarleik, og skili afrakstrinum til samfélagsins þegar það á við. Hægt er að fylgjast með starfi tónlistarskólans á facebook síðu skólans.

Hvað er að frétta? er liður á heimasíðunni þar sem birtar eru fréttir af starfsstöðvum og stofnunum sveitarfélagsins.