Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Kæru íbúar

Kæru íbúar

Þetta er ekki búið. Ríkis­lög­reglu­stjóri í samráði við sótt­varna­lækni hefur fært almanna­varn­arstig upp á neyð­arstig vegna COVID-19. Eitt smit hefur verið stað­fest hjá okkur og hefur verið gripið til viðeig­andi ráðstafana vegna þessa. Hertar aðgerðir á landsvísu tóku gildi á miðnætti og gilda þær til og með 19. október nk.


Skrifað: 5. október 2020

Fréttir

Helstu takmarkanir skv. reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar eru:

  • 20 einstaklingar mega koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum
  • 1 meter skal halda á milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum
  • Í starfsemi sem krefst nálgæðar skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn
  • Húsnæði líkamsræktarstöðva skal vera lokað almenningi
  • 50 einstaklingar mega koma saman á æfingum og keppnum og snertingar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum eru heimlar, en 1 meter nálgæðartakmörk skulu vera í búningsklefum
  • Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti. Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, meðal annars við afgreiðslukassa og innkaupakerrur í verslunum.

Þá tóku einnig á miðnætti gildi takmarkanir á skólastarfi samkvæmt reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, en þær eru:

Leikskólar

  • Starfsfólk skal gæta að 1 metra nálægðartakmörkun og nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að gæta að nálgæðartakmörkum
  • Ekki skulu vera fleiri en 30 einstaklingar fæddir 2004 eða fyrr í hverju rými
  • Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til
  • Viðvera foreldra sem dvelja inni á leikskóla vegna aðlögunar skal skipulögð þannig að þeir þurfi ekki að nota hreinlætis- eða mataraðstöðu í byggingunni og skulu þeir gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt sín á milli og gagnvart starfsfólki. Aðeins eitt foreldri fylgi barni í aðlögun
  • Stjórnendum leikskóla er heimilt að krefja foreldra að nota andlitsgrímur í aðlögun
  • Aðrir en starfsmenn og foreldrar sem koma inn á leikskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu gæta að 1 metra nálægðartakmörkun
  • Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Grunnskólar, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf í grunnskólum

  • Starfsfólk skal gæta að 1 metra nálægðartakmörkun og nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að gæta að nálgæðartakmörkum
  • Ekki skulu vera fleiri en 30 einstaklingar fæddir 2004 eða fyrr í hverju rými. Ekki gilda aðrar takmarkanir á samkomum barna á grunnskólaaldri
  • Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Aðrir en starfsmenn og foreldrar sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu gæta að 1 metra nálægðartakmörkun
  • Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Vesturbyggð starfar í samræmi við viðbragðsáætlun sveitarfélagsins.

Samkomutakmarkanir sem tóku gildi 5. október 2020 hafa nokkur áhrif á starfsemi Vesturbyggðar. Líkamsrækt í Bröttuhlíð Patreksfirði og Byltu Bíldudal eru lokaðar til 19. október nk. Þá eru foreldrar og aðstandendur leik- og grunnskólabarna beðnir um að koma ekki inn í húsnæði leik- og grunnskóla í Vestubyggð nema brýna nauðsyn beri til og í samráði við skólastjórnendur, en við slíkar aðstæður er skylt að gæta að nálægðatakmörkum og halda 1 meter á milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum. Vesturbyggð beinir því til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu.

Ég hvet svo íbúa í Vesturbyggð til að fylgjast vel með tilkynningum og upplýsingum frá stofnunum sveitarfélagsins, því líkt og í fyrri bylgjum COVID-19 þá geta hlutirnir breyst mjög hratt.

Ég hvet íbúa alla til að sýna þessu vandasama verkefni þolinmæði. Við verðum að hjálpast að og styðja hvort annað við að gæta varkárni í samskiptum okkar og fara eftir fyrirmælum fagfólks. Þá er mikilvægt að við hugum að nágrönnum okkar og ættingjum ef mögulegt er að einhverjir íbúar einangrist eða þarfnist þjónustu. Við erum öll almannavarnir og það er í okkar höndum að lágmarka áhrif þessa faraldurs.