Hoppa yfir valmynd

Kosning um orð ársins 2024

Kosning er hafin um orð ársins 2024 í Vest­ur­byggð. Íbúum gafst áður tæki­færi til að senda inn tillögur.


Skrifað: 19. desember 2024

Valið var úr þeim tillögum sem bárust og er nú opið fyrir kosningu á milli þeirra. Alls bárust 24 tillögur og eru íbúum færðar kærar þakkir fyrir þátttökuna.

Hlekkurinn á kosninguna er neðst í þessari frétt. Hægt er að kjósa til miðnættis kvöldsins 26. desember, úrslitin verða kunngjörð daginn eftir á heimasíðu Vesturbyggðar. Kosningin er nafnlaus.

Hér eru orðin sem kosin eru um, ásamt útskýringum:

  1. Innviðir
    Orð sem var mikið í deiglunni í árinu, meðal annars í tengslum við alþingiskosningar.
  2. Jarðgöng
    Göng undir Mikladal, Hálfdán og fleiri heiðar eru stöðugt í umræðunni.
  3. Kosningar
    Íbúar Vesturbyggðar gengu þrisvar sinnum í kjörklefann á árinu.
  4. Kraftur
    Í tillögunni segir að það sé mikil uppbygging, jákvæðni og ákveðni í sveitarfélaginu.
  5. Neysluhlé
    Í nýjum kjarasamningum er kveðið á um neysluhlé í stað kaffipásu.
  6. Rizz
    Þetta slanguryrði er afbökun á enska orðinu charisma og er notað jafnt sem nafnorð og sagnorð. Það vísar til sjarma og hæfni til að heilla aðra. Í tillögu segir „Tálknafjörður rizzaði sig vel upp þegar hann sameinaðist Vesturbyggð“.
  7. Samgöngur
    Í tillögu segir „Allt veltur á góðum samgöngum og umræðan er alltaf í gangi.“
  8. Sliving
    Þetta er slanguryrði samansett af slanguryrðunum slay og living og merkir að ná árangri, njóta lífsins, vera frábær o.þ.h. Í tillögum segir „Maður er bara alltaf sliving á Vestfjörðum“ og „Með nýju sameinuðu sveitarfélagi kemur helst upp í hugann sliving.“
  9. Vatnsdalsvirkjun
    Lifandi umræða var um hugsanlega Vatnsdalsvirkjun á árinu, meðal annars í tengslum við sveitarstjórnar- og alþingiskosningar.
  10. Vatnslaust
    Í tillögu segir að vatnsleysi hafi verið „aðal fréttin á heimasíðu Vesturbyggðar.“ Vissulega þurfti óvenju oft að loka fyrir vatnið í ár.

Menningar- og ferðamálafulltrúi

VMÞ

muggsstofa@vesturbyggd.is/+354 450 2335