Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 6 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Nýr vefur Vest­ur­byggðar

Unnið hefur verið að nýjum vef fyrir Vest­ur­byggð síðan í apríl. Vefurinn hefur nú verið settur í loftið til reynslu en enn er unnið að smávægi­legum breyt­ingum og þróun hans.


Skrifað: 11. júlí 2018

Fréttir

Íbúar ættu að finna allt sem var á fyrri vef sveitarfélagsins á þeim nýja, auk þess sem nokkrar nýjungar eru kynntar til leiks. Vefurinn er gerður eftir öllum helstu stöðlum nútímans, hann er aðgengilegur í snallsímum og spjaldtölvum og þá er sérstaklega litið til aðgengis þeirra sem þurfa aðstoð við að skoða vefi.

Meðal nýjunga á vefnum má nefna upplýsingar um veður, færð og opnunartíma helstu þjónustu sveitarfélagsins, sem eru nú aðgengilegar á forsíðu hans. Þetta á örugglega eftir að koma sér vel.

Fyrst um sinn verður vefurinn einungis á íslensku en þegar prófunum á honum er lokið verður hann þýddur á ensku og pólsku.

Aðgengilegri fundargerðir

Ein helsta breytingin með nýjum vef er aðgengi íbúa að fundargerðum. Nú er hægt að fylgjast með ferlum tiltekinna mála með því að vakta einstaka málsnúmer á vefnum með auðveldum hætti. Þetta einfaldar íbúum og lögaðilum að fylgjast með ferli mála sinna í stjórnkerfi sveitarfélagsins.

Miðlun upplýsinga auðveldari

Við hönnun og gerð vefsins var leitast við að gera miðlun upplýsinga snarpari og auðveldari, bæði fyrir íbúa og notendur en ekki síður fyrir þá sem vinna við að koma upplýsingunum á framfæri. Samhliða því hefur verið hafin vinna við alhliða stefnu miðlunar sem lítur ekki síst að samfélagsmiðlum. Þannig styður nýr vefur við upplýsingar af samfélagsmiðlum á borð við Google og Twitter.

Meðan á vinnu við nýan vef stóð var gerð gangskör í að leiðrétta upplýsingar í kortagrunni Google, Google Maps, og eru þjónustuaðilar í sveitarfélaginu hvattir til að gæta þess að upplýsingar í grunninum sé sem réttastar. Gangi það eftir er ætlunin að birta upplýsingar fleiri þjónustuaðila á vefnum, beint frá Google. Þannig geta umsjónarmenn uppfært upplýsingar hratt og örugglega með beinum hætti.

Vesturbyggð hefur notið leiðsagnar Greips Gíslasonar, ráðgjafa, við undirbúning nýs vefs og gerð samskiptastefnu. Hönnun og forritun er í höndum Kolofon.

Sem fyrr sagði er enn unnið að lokafrágangi og því eru athugasemdir við efni eða vefinn í heild vel þegnar. Þeim má koma til skila á netfangið ritstjorn@vesturbyggd.is.