Opinn fundur — Mótun stefnu í ferðaþjónustu
Markaðsstofa / Áfangastaðastofa Vestfjarða stendur fyrir opnum fundum um alla Vestfirði þar sem unnið verður með gerð nýrrar áfangastaðaáætlunar. Haldinn verður opinn fundur á Skútanum á Patreksfirði þriðjudaginn 8. apríl kl. 16:30.
Í áfangastaðaáætlun Vestfjarða er staða ferðaþjónustunnar skoðuð og sett fram framtíðarsýn, markmið og leiðir að þeim. Í áætluninni er leitast við að sjá þessa þróun frá mörgum ólíkum sjónarhornum og að taka tillit til sem allra flestra sem eiga hagsmuna að gæta.
Markmið Áfangastaðaáætlunar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem skilar sem mestu til samfélagsins um leið og mögulegum neikvæðum áhrifum er haldið í lágmarki. Áætlunin tekur tillit til gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfis og reynir að skapa jafnvægi. Hún auðveldar íbúum að hafa áhrif á hvernig ferðaþjónustan þróast og hvaða skref skuli taka. Þannig eru meiri líkur á að uppbyggingin hafi jákvæð áhrif á efnahag og samfélag.
Fundirnir er opnir öllum, hvort sem það eru ferðaþjónar, kjörnir fulltrúar eða almennir íbúar. Kaffi, meðlæti og tækifæri til að hafa áhrif í boði.