Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 5 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Opnun­ar­hátíð nýs Ráðhúss Vest­ur­byggðar

Fimmtu­daginn 6. desember var haldin opnun­ar­hátíð í Ráðhúsi Vest­ur­byggðar þar sem íbúum og öðrum var boðið að koma að skoða nýtt húsnæði og hitta starfs­fólk. Margir lögðu leið sína í Ráðhúsið og var notaleg stemning en boðið var upp á léttar veit­ingar ásamt lifandi tónlist.


Skrifað: 7. desember 2018

Fréttir

Í tilefni opnunarinnar var sett af stað nafnasamkeppni fyrir fundarherbergi hússins, en þau eru þrjú talsins. Þriggja manna nefnd var sett saman til að velja úr þeim tillögum sem voru sendar inn og í nefndinni sátu Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri, Sigríður Ólafsdóttir og Ólöf María Samúelsdóttir. Niðurstaða valnefndar var sú að fundarherbergi bæjarstjórnar heitir nú Brellur og kom sú tilnefning frá Berglindi Kristjánsdóttur. Fundarherbergi nefnda var nefnt Svörtuloft og kom sú tilnefning frá Ingu Hlín Valdimarsdóttur, en Svörtuloft eru innan Raknadalshlíðar í Patreksfirði. Fundarherbergi á neðri hæð fékk nafnið Flóki, en bæði Elsa Reimarsdóttir og Silja Björg Ísafoldardóttir lögðu það nafn til.

Starfsfólk Ráðhússins vill þakka öllum kærlega fyrir komuna en einnig viljum við benda á að Ráðhúsið er opið alla virka daga og eru íbúar og aðrir alltaf hjartanlega velkomnir. Einnig vill sveitarfélagið koma á framfæri sérstökum þökkum til Julie Gasiglia sem sá um hönnun hússins að innan sem og til allra þeirra iðnaðarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins sem hafa lagt hönd á plóg í að koma húsinu í rétt horf.