Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Skjald­borg 2020 í Bíó Paradís

Skjald­borg—hátíð íslenskra heim­ilda­mynda verður haldin í samstarfi við Bíó Paradís helgina 18.-20. sept­ember 2020.


Skrifað: 10. september 2020

Fréttir

Skjaldborg—hátíð íslenskra heimildamynda er nú haldin í Reykjavík í fyrsta sinn og hreiðrar um sig í Bíó Paradís—heimili kvikmyndanna.

Skjaldborg er uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Þrettán myndir verða frumsýndar á hátíðinni og sjö verk í vinnslu kynnt. Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Hrafnhildur Gunnarsdóttir og verða sýndar þrjár myndir úr hennar höfundasafni auk þess sem Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson mun leiða masterclass með Hrafnhildi.

Stakir bíómiðar kosta 1.690 kr. og Skjaldborgarpassi sem gildir á allar sýningar hátíðarinnar kostar 8.900 kr.