Hoppa yfir valmynd

Skipu­lags­vinna vegna mögu­legrar land­fyll­ingar

Ný Húsnæð­isáætlun var samþykkt á bæjar­stjórn­ar­fundi Vest­ur­byggðar miðviku­daginn 21. febrúar sl. Samkvæmt húsnæð­isáætl­un­inni sem miðar við miðgildi áætl­aðrar íbúa­þró­unar þarf að byggja 229 íbúðir í Vest­ur­byggð á næstu 10 árum. Því er mikil­vægt að lóðir séu skipu­lagðar í sveit­ar­fé­laginu til uppbygg­ingar nýs íbúð­ar­hús­næðis og atvinnu­hús­næðis.


Skrifað: 28. febrúar 2024

Einungis eru 11 lóðir fyrir íbúðarhúsnæði auglýstar til úthlutunar í Vesturbyggð í dag. Á árinu 2023 var klárað deiliskipulag íbúðabyggðar í landi Hóls á Bíldudal þar sem gert er ráð fyrir byggingu 58 íbúða. Í vinnslu er deiliskipulag við Þórsgötu ofan við höfnina á Patreksfirði en betur má ef duga skal.   

Vesturbyggð hefur verið að leita eftir ákjósanlegu svæði til bygginga á Patreksfirði og var frumtillaga að landfyllingu á Patreksfirði því tekin fyrir á síðasta bæjarstjórnarfundi. Á því landsvæði sem verður til með landfyllingunni er gert ráð fyrir íbúðabyggð, verslun og þjónustu og möguleika á stækkun leikskólalóðar.   

Á fundinum var samþykkt að farið yrði í breytingar á aðalskipulagi samhliða gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Unnið verður áfram með útfærslu landfyllingarinnar út frá skipulagi byggðarinnar meðal annars m.t.t.  útivistargildis, ásýndar og byggingarmagns. Ekki er búið að áætla hvenær framkvæmdir hefjast.  

Markmið landfyllingarinnar er þríþætt:  

  • Að fjölga lóðum fyrir íbúðabyggð.  
  • Að færa þunga umferð lengra frá leikskólalóðinni við Araklett ásamt möguleika á stækkun lóðarinnar með stækkandi byggð.  
  • Að fjölga lóðum fyrir þjónustu og verslun og styrkja miðbæ Patreksfjarðar með því að skapa tækifæri til að þétta byggðina miðsvæðis. Með nýjum miðbæ og aðgengi fólks að þjónustu á sama svæði yrði til betri bæjarbragur innan Patreksfjarðar þangað sem fólk sækir þjónustu og afþreyingu.