Hoppa yfir valmynd

Skjald­borg 3.-6. júní 2022

Skjald­borg – hátíð íslenskra heim­ilda­mynda verður haldin um hvíta­sunnu­helgina á Patreks­firði dagana 3. – 6. júní 2022. Eftir reikul ár í heims­far­aldri er hátíðin loks komin aftur í sitt uppruna­lega form og nú verður fagnað!


Skrifað: 9. maí 2022

Fréttir

Enginn verður svikinn af heimildamyndaveislu, gæðastundum í Skjaldborgarbíói, skrúðgöngu, plokkfiskveislu, limbókeppni og sumarnóttinni á Patreksfirði. Í ár verður einnig sérstök áhersla lögð á notkun sögulegs efnis í heimildamyndagerð.

Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi
samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Dagskráin í Skjaldborgarbíó verður fjölbreytt og auk heimildamynda og kynningu á verkum í vinnslu verður Kvikmyndasafn Íslands með sér dagskrárlið, Ari Eldjárn fylgir áhorfendum gegnum myndefni frá fjölskyldu sinni og Björg Sveinbjörnsdóttir frá Hversdagssafninu á
Ísafirði gefur áhorfendum innsýn í hljóðin úr eldhúsi ömmu sinnar.

Þá verður heimamyndadagur hluti af hátíðinni og einn dagskrárliðurinn er því óborganlegt heimamyndabingó sem spilað er upp úr heimagerðu myndefni Vestfirðinga. Á heimamyndadegi taka sérfræðingar Heimamyndasamsteypunnar við heimagerðum
hreyfimyndum fólks á ýmsum miðlum; filmum af háaloftinu, vídeóspólum eða stafrænu efni. Farið er yfir ástand efnisins og það lagfært – og úrval heimamynda verður sýnt á stóra tjaldinu!

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Magnus Gertten en hann er margverðlaunaður heimildamyndagerðarmaður frá Svíþjóð. Hann hlaut Teddy verðlaunin á Berlinale fyrr á þessu ári fyrir heimildamyndina Nelly & Nadine sem verður jafnframt opnunarmynd Skjaldborgar í ár. Nelly & Nadine er ástarsaga tveggja kvenna sem felldu hugi á aðfangadag árið 1944 í Ravensbrück útrýmingarbúðunum. Þrátt fyrir aðskilnað síðustu mánuði seinni heimsstyrjaldarinnar náðu þær saman á ný og vörðu ævikvöldinu saman. Í verkinu afhjúpar dótturdóttir Nelly hina ótrúlegu og ósögðu sögu ástkvennanna sem nær yfir heimshöfin og samfélagsleg norm þess tíma.

Einnig verður sýnd myndin Every Face has a Name í leikstjórn Gerttens sem byggir á dýrmætu sögulegu efni. Every Face Has a Name er mynd um mennskuna og marglaga merkingu frelsisins. Þann 28. apríl 1945 stigu hátt í tvö þúsund manns á land í Malmö eftir dvöl í útrýmingarbúðum nasista. Fest var á filmu þegar skipin lögðu að höfn og fólkið steig á land í nýfundið frelsið. Í verkinu leggur Magnus Gertten upp í þá vegferð að finna fólkið á myndunum, ljá þeim rödd og tengja við persónu nafnlausra andlitanna.

13 myndir verða sýndar á hátíðinni auk þess sem verk í vinnslu verða kynnt.

Tíu myndir verða frumsýndar á Skjaldborg en við þær sérstöku aðstæður sem sköpuðust í samfélaginu á undanförnum árum var Skjaldborg aflýst árið 2021 og því hefur þremur myndum frá því ári verið boðin þátttaka í hátíðinni.

Alexander
Leikstjóri: Óli Hjörtur Ólafsson
Framleiðandi: Óli Hjörtur Ólafsson og Arnór Gíslason

Árni
Leikstjóri: Allan Sigurðsson og Viktoría Hermannsdóttir
Framleiðandi: Allan Sigurðsson, Viktoría Hermannsdóttir og Sólmundur Hólm Sólmundarson

Börn kvótakerfisins
Leikstjóri: Björg Sveinbjörnsdóttir
Framleiðandi: Björg Sveinbjörnsdóttir

Díflissudúfa
Leikstjóri: Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko
Framleiðandi: Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko

Hvunndagshetjur
Leikstjóri: Magnea Björk Valdimarsdóttir
Framleiðandi: Júlíus Kemp, María Lea Ævarsdóttir og Magnea Björk Valdimarsdóttir
Kvikmyndafélag Íslands

Hækkum rána
Leikstjóri: Guðjón Ragnarsson
Framleiðandi: Margrét Jónasdóttir
Sagafilm

Í öruggum höndum
Leikstjóri: Hera Fjord
Framleiðandi: Hera Fjord

Moses í mynd
Leikstjóri: Helgi Jóhannsson
Framleiðandi: Ólafur Páll Torfason og Helgi Jóhannsson

Sundlaugasögur
Leikstjóri: Jón Karl Helgason
Framleiðandi: Jón Karl Helgason

JHK Films
Thinking about the Weather
Leikstjóri: Garðar Þór Þorkelsson
Framleiðandi: Jamie Mcdonald

Wandering Star
Leikstjóri: Ari Allansson
Framleiðandi: Ari Allansson

Vatnavísundurinn
Leikstjóri: Kamilla Gylfadóttir
Framleiðandi: Syros International Film Festival

Tídægra
Leikstjóri: Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnason
Framleiðandi: Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnason
Elsku Rut og Lokaútgáfan

Nánari kynning á myndunum birtist á næstu dögum á vef og samfélagsmiðlum hátíðarinnar.
http://skjaldborg.is
https://www.facebook.com/skjaldborg.hatid.islenskra.heimildamynda/
https://www.instagram.com/skjaldborg_heimildamyndahatid/

Skjaldborg þakkar samstarfsaðilum og velunnurum veittan stuðning:

Kvikmyndamiðstöð Íslands
Sóknaráætlun Vestfjarða
Vesturbyggð
Orkubú Vestfjarða
Oddi hf.
Vestri
Flugfélagið Ernir
Bríó
Hertz
Kukl
Trickshot
Sæferðir
Fosshótel
Stekkaból

Endilega hafið samband fyrir frekari upplýsingar og óskir um viðtöl.
Tengiliður
Karna Sigurðardóttir
+354 866 6977
skjaldborg@skjaldborg.is