Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 4 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Skóflu­stunga á Bíldudal

Í gær, mánu­daginn 31. maí var tekin fyrsta skóflu­stunga að 10 íbúða fjöl­býl­is­húsi við Hafn­ar­braut 9 á Bíldudal. Um er að ræða bygg­ingu Bæjar­túns ehf. á 4 íbúðum með stofn­fram­lögum ríkisins og Vest­ur­byggðar, en sveit­ar­fé­lagið leggur 13,4 millj­ónir í stofn­framlag til verk­efn­isins. 4 íbúðir eru byggðar af Nýja­túni leigu­fé­lagi ehf. og 2 íbúðir byggðar af Hrafnshól ehf.

 


Skrifað: 1. júní 2021

Fyrsta skólfustungan var tekin af Iðu Marsibil Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar, Friðbjörgu Matthíasdóttur bæjarfulltrúa og Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra ásamt Sigurði Garðarssyni fyrir hönd Bæjartúns, Nýjatúns og Hrafnshóla.

 Íbúðirnar eru 2ja og 3ja herbergja íbúðir, 51 m2 og 76 m2. Framkvæmdir munu hefjast á næstu vikum. Hluti þeirra íbúða sem byggðar verða eru þegar komnar á sölu, en íbúðunum er skilað fullbúnum með helstu tækjum í eldhúsi og gólfefnum.

Hrafnshóll ehf. er viðurkenndur byggingaraðili hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og því er unnt að kaupa íbúð við Hafnarbraut 9 á Bíldudal m.a. með hlutdeildarlánum, þar sem HMS leggur fram 20% af kaupverði íbúðar og kaupendur leggja fram 5% af kaupverði íbúðar. Hlutdeildarlán er m.a. góður kostur fyrir fyrstu kaupendur og þá sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán. Nánar er hægt að kynna sér fyrirkomulag hlutdeildarlána hér 

 Mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði í Vesturbyggð og er bygging þessara 10 íbúða mikilvægt skref til að bregðast við þeirri miklu íbúafjölgun sem orðið hefur verið, en íbúar í Vesturbyggð eru nú 1.100 talsins.