Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Skóla­stefna Vest­ur­byggðar

Á 371. fundi bæjar­stjórnar Vest­ur­byggðar 11. maí 2022 var stað­fest endur­skoðuð skóla­stefna Vest­ur­byggðar. Í stefn­unni er að finna fram­tíð­arsýn Vest­ur­byggðar þegar kemur að starf­rækslu leik­skóla, grunn­skóla og tónlist­ar­skóla í sveit­ar­fé­laginu.


Skrifað: 17. maí 2022

Fréttir

Framtíðarsýn

Markmið Vesturbyggðar er að starfrækja grunn, leik- og tónlistarskóla í Vesturbyggð sem standast ýtrustu gæðakröfur á hverjum tíma þar sem allir leggjast á eitt um að stuðla að fjölbreyttu og metnaðarfullu skólastarfi. Vellíðan barna er í fyrirrúmi og skóla- og félagsstarf byggir á að rækta styrkleika nemenda kerfisbundið. Mikil áhersla er lögð á uppbyggjandi samskipti við nemendur, foreldra og á milli starfsfólks. Leitað verði fjölbreyttra leiða til þess að koma til móts við nemendur og foreldra óháð búsetu og lögð áhersla á að tengja saman skólastarf, íþróttir, tómstundir og félagslíf. Áhersla er lögð á framúrskarandi starfsaðstæður, kurteisi, gagnkvæma virðingu, jafnrétti og mannréttindi, samvinnu og lýðræðislega starfshætti. Komið er fram við börn af virðingu og tiltrú og skýrar væntingar gerðar til þeirra.

Þá er í stefnunni fjallað um samfellda skólagöngu og samstarf skóla, tómstunda, tónlistar- og íþróttastarfs og að fundnar verði leiðir til þess að nemendur sem hefja framhaldsskólagöngu geti valið úr fjölbreyttum leiðum til að stunda gæðaframhaldsskólanám í heimabyggð eins lengi og kostur er.

Endurskoðunin

Í byrjun árs 2022 ákvað bæjarstjórn Vesturbyggðar að endurskoða skólasefnu sveitarfélagsins sem var frá árinu 2014 en heilmikið hefur áunnist á gildistíma eldri stefnu. Skipaður var starfshópur sem hélt utan um endurskoðunina en í honum sat Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, Friðbjörg Matthíasdóttir og Davíð Valgeirsson en með hópnum störfuðu bæjarstjóri og sviðsstjóri fjölskyldusviðs. Kristrún Lind Birgisdóttir frá Ásgarði stýrði verkinu. Vinna við endurskoðunina hófst í upphafi árs 2022 þar sem haldnir voru fundir með starfsfólki skólanna, lagðir fyrir spurningalistar og 22. mars 2022 var haldinn opinn fundur um endurskoðun skólastefnuna, þar sem íbúar voru hvattir til að láta í sér heyra um það hvert skólamál í Vesturbyggð skyldu stefna til framtíðar. Við endurskoðun stefnunnar var lagt upp með að ná breiðri sátt um áherslur og stefnan næði yfir skólamál sveitarfélagsins en jafnframt íþróttir, félagsmál og menningu barna í sveitarfélaginu. Vesturbyggð þakkar öllum þeim sem tóku þátt í endurskoðun stefnunnar kærlega fyrir þeirra framlag.

Innleiðing skólastefnunnar

Skólastefna Vesturbyggðar gildir til næstu fimm ára og samhliða vinnslu stefnunnar voru einnig unnin drög að aðgerðaráætlun við innleiðingu hennar. Vinna við innnleiðingu skólastefnunnar mun taka mið af fjárhagsáætlun Vesturbyggðar og endurspeglast í starfsáætlun fræðslu- og æskulýðsráðs. Gert er ráð fyrir því að á hverju vori fari fræðslu- og æskulýðsnefnd yfir árangur af stefnunni í samvinnu og samráði við skólastjórnendur og stöðu á innra mati þeirra stofnana sem undir stefnuna heyra.

Gæðahandbók skólastefnunnar, þar sem er að finna öll gögn skólastefnunnar eru aðgengileg hér.