Hoppa yfir valmynd

Skrifað undir samning um rekstur Baldurs

Vega­gerðin og Sæferðir hafa komist að samkomu­lagi um rekstur á Breiða­fjarð­ar­ferj­unni Baldri.


Skrifað: 31. október 2023

Fréttir

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Sæferða, skrifuðu í gær undir samning um að Sæferðir taki að sér rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Áformað er að nýr Baldur hefji áætlunarsiglingar um Breiðafjörð upp úr miðjum nóvember.

Baldur er í slipp hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. í Hafnarfirði en gera þurfti nokkrar breytingar til að skipið getið þjónað siglingum á Breiðafirði með viðkomu í Flatey.

Undanfarið hefur meðal annars verið unnið að því að koma fyrir nýjum þilfarskrana, nýjum landfestuvindum, færa björgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan svo það helsta sé nefnt.  Einnig hefur verið unnið að almennu viðhaldi véla og búnaðar. Vonast var til að þessari vinnu myndi ljúka fyrir lok október en vætutíð hefur seinkað allri vinnu við málun og þar með verkinu í heild.

Sæferðir sem sinnt hafa þjónustu við Flatey á Breiðafirði gera það með skipinu Særúnu þangað til Baldur verður tilbúinn til reksturs á Breiðafirði.