Hoppa yfir valmynd

Skyldur eigenda gælu­dýra

Að gefnu tilefni er rétt að árétta að samþykktir um gælu­dýra­hald er til staðar í Vest­ur­byggð. Gæludýr eru leyfis- og skrán­ing­ar­skyld og ber að greiða af þeim gjöld í samræmi við samþykktir.


Skrifað: 7. júní 2023

Auglýsingar

Þar er um að ræða samþykkt um hundahald sem og samþykkt um katta- og annað gæludýrahald. Hlekkir á samþykktirnar eru neðst í fréttinni.

Meginefni þeirra samþykkta sem gilda í sveitarfélaginu er að það er á ábyrgð gæludýraeiganda að gæta að velferð dýra sinna og ekki síður að gæta þess að dýrin séu ekki öðrum til ama eða óþæginda.

Í 12 gr. samþykktar um hunda stendur:

Leyfishafi skal gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði né raski ró manna. Hundar skulu ávallt vera í taumi utan húss og í umsjá manns, sem hefur fullt vald yfir þeim. Heimilt er þó að hafa hunda lausa undir eftirliti ábyrgs aðila innan hundheldrar girðingar. Óheimilt er að láta hunda vera lausa innan marka þéttbýlis, nema nytjahunda, þegar þeir eru að störfum í gæslu eigenda eða umráðamanns. Lausaganga hunda er bönnuð í dreifbýli nema með leyfi landeigenda. Hundaeiganda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.

Þá segir í 17. gr. sömu samþykktar:

Afturköllun leyfis. Um brot gegn samþykkt þessari fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum. Ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum, sem um hundahald gilda, getur bæjarstjórn afturkallað leyfið. Einnig getur bæjarstjórn afturkallað öll leyfi til hundahalds telji hún þess brýna þörf. Brot gegn samþykkt þessari varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um að ræða stórfellt eða ítrekað ásetningarbrot skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum. Mál út af brotum gegn samþykkt þessari skulu sæta meðferð opinberra mála.

Í 8. gr. um ketti stendur:

Kattaeigendum og umráðamönnum ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, eftir því sem tök eru á, m.a. með því að hengja bjöllur á hálsólar katta og halda þeim innandyra á nóttunni.

Förum eftir samþykktum og stuðlum að betra gæludýrasamfélagi.

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Geir Gestsson geir@vesturbyggd.is / 450 2300