Sliving er orð ársins 2024
Kosningu um orð ársins 2024 í Vesturbyggð er lokið og bar slanguryrðið sliving sigur úr býtum.
Þann 16. desember síðastliðinn var auglýst eftir tillögum að orði ársins 2024 í Vesturbyggð. Margar góðar og frumlegar tillögur bárust og var kosið á milli 10 þeirra. Alls var kosið 214 sinnum og dreifðust atkvæðin á þennan hátt:
- Innviðir: 2 atkvæði eða 1%
- Jarðgöng: 13 atkvæði eða 6%
- Kosningar: 4 atkvæði eða 2%
- Kraftur: 7 atkvæði eða 3%
- Neysluhlé: 2 atkvæði eða 1%
- Rizz: 64 atkvæði eða 30%
- Samgöngur: 13 atkvæði eða 6%
- Sliving: 91 atkvæði eða 43%
- Vatnsdalsvirkjun: 11 atkvæði eða 5%
- Vatnslaust: 7 atkvæði eða 3%
Kærar þakkir eru færðar öllum þeim sem tóku þátt í valinu, sem er fyrst og fremst til gamans gert.
Hvað merkir orðið sliving?
Sliving er slangur sem notað er í jákvæðri merkingu og er samsett úr orðunum slay og living. Bein þýðing orðsins á íslensku virðist ekki vera til, en segja má að sá sem er sliving sé að njóta lífsins og skara fram úr á öllum sviðum. Í tillögum sem bárust sagði í rökstuðningi annars vegar „Maður er bara alltaf sliving á Vestfjörðum“ og hins vegar „Með nýju sameinuðu sveitarfélagi kemur helst upp í hugann sliving.“