Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 4 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Staða á fram­kvæmdum í Vest­ur­byggð

Vest­ur­byggð hefur að undan­förnu staðið í margskonar fram­kvæmdum í sveit­ar­fé­laginu.


Skrifað: 9. ágúst 2019

Ein þeirra er Urðargata 18-26 Patreksfirði. Þar hefur framkvæmdatími því miður farið fram áætlun. Ástæða þeirra tafa eru aðalega að lagnaefni fyrri ára eru af ólíkum toga og lentum við í töfum við að finna rétta efnið til að tengja okkur inn á þá tegund plastefnis sem fyrir var í götunni. Á sama tíma eru að koma upp aðstæður þar sem verktakaskortur er orðinn virkilega áþreifanlegur sem aftur hefur skapast af mikilli þenslu í sveitarfélaginu, sem aftur er jákvætt. Nú er vonast til að þeim lagfæringum sem yfir standa í Urðargötu sé að ljúka en verið er að vinna í að fá á svæðið malbiks viðgerðarefni sem kæmi með sérstökum bíl sem jafnframt myndi leggja malbikið yfir viðgerðarsvæðið, sem fyrst eftir að lagnaviðgerð er lokið.

Í Vesturbyggð eru vatns- og fráveitulagnir á nokkrum stöðum komin verulega til ára sinna. Það hefur verið töluvert um það í sumar að stofnlagnir okkar hafa verið að gefa sig með tilheyrandi óþægindum fyrir fyrirtæki og íbúa.  Á þeim tíma sem mikið er að gera í atvinnulífinu í sveitarfélaginu hefur á stundum verið erfitt fyrir starfsfólk vatns og fráveitu að bregðast við þessum óvæntu bilunum þar sem mikið er um að vera í uppbyggingu.

Verið er að vinna í að leggja nýtt yfirborð á Lönguhlíð á Bíldudal en þar var farin sú leið að fá vinnuhóp til að fræsa, harpa og endurleggja það yfirborð sem fyrir var í götunni. Nú er verið að leggja nýja olíumöl yfir þá götu, þannig að væntingar eru um að sú gata verði mun betri að þeirri yfirferð lokinni.

Lokið verður við að leggja rykbindingu á Stekka 1-15 nú á allra næstu dögum en sú framkvæmd er hugsuð sem tímabundin lausn til að bæta loftgæði okkar með því að takmarka rykmyndum í þéttbýli.

Á Bíldudal verður á næstu vikum boðið út verkið; „Vatnslokahús á nýja vatnslögn“.  Þar verður aflögð nokkuð löng vatnslögn innan við bæinn og tekin í notkun ný lögn sem er að mestu tilbúin. Með þeirri aðgerð verður lögnin sem hefur verið að gefa sig oft að undanförnu aflögð. Sú lögn er gömul asbest lögn sem hefur verið mjög erfitt að viðhalda. Hægt verður að stýra betur vatnsþrýstingi á Bíldudal með þessari aðgerð og þá verður að auki komin aðstaða til að geisla vatnið ef þörf krefur síðar.

Þessum framkvæmdum mun ljúka fljótlega og vonumst við til að okkur verði fyrirgefin þau óþægindi sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér.

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Geir Gestsson geir@vesturbyggd.is / 450 2300