Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Stafræn sveit­ar­félög - samstarfs­verk­efni

Stafræn umbreyting snýst um umbætur á þjón­ustu og vinnu­lagi með tækninýj­ungum. Þetta er mjög stórt breyt­inga­verk­efni bæði fyrir hið opin­bera sem og einka­geirann en ávinn­ing­urinn er að einfalda líf íbúa og bæta skil­virkni og rekstur. Umbætur með hagnýt­ingu tækn­innar auðvelda íbúum að sækja þjón­ustu, fækka hand­tökum starfs­manna, auka gagnsæi og rekj­an­leika og gefa færi á betri nýtingu upplýs­inga og gagna.   


Skrifað: 5. maí 2022

Fréttir

Samband íslenskra sveitarfélaga réð breytingastjóra um stafræna umbreytingu í lok árs 2019 til að vinna að stafrænu samstarfi sveitarfélaga í samræmi við stefnumörkun landsþings sambandsins fyrir það kjörtímabil sem nú er að renna sitt skeið á enda. Breytingastjóri byrjaði á því að setja á laggirnar faghóp um stafræna umbreytingu sem er skipaður stafrænum sérfræðingum sveitarfélaga. Í kjölfarið samþykkti stjórn sambandsins að skipa stafrænt ráð sveitarfélaga með fulltrúum frá öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga og Reykjavíkurborg til að vera tengiliður við sveitarfélögin og styðja við uppbyggingu stafræns samstarfs þeirra.  Í júní 2021 var svo stofnað stafrænt umbreytingateymi sambandsins með þremur sérfræðingum til að vinna að framkvæmd stafrænna samstarfsverkefna sveitarfélaga. Stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti jafnframt að sambandið yrði aðili að stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera.

 

Vefsíðan https://stafrean.sveitarfelog.is er stuðnings- og upplýsingasíða um stafrænt samstarf sveitarfélaga. Þar er hægt að  sjá hvaða samstarfsverkefni sveitarfélaga sem eru í gangi. Þar er einnig verkfærakista fyrir stafræna umbreytingu sveitarfélaga með sniðmáti og leiðbeiningum,  t.d. um áhættugreiningar. Til viðbótar hafa verið settar inn á síðuna tæknilausnir sem sveitarfélögin geta sjálf sett upp á sínum síðum á einfaldan hátt, svo sem reiknivél fyrir leikskólagjöld, sorphirðudagatal og fl. Auk þess eru þar reynslusögur sveitarfélaga til að yfirfæra stafræna reynslu á milli þeirra. Vefsíðan er einnig fréttaveita um það sem er að gerast í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga. Jafnframt er gefið út mánaðarlega fréttabréf sem hægt er að gerast áskrifandi að eða fylgja Facebook síðunni Stafræn sveitarfélög.

 

Framsýnir leiðtogar sveitarfélaga um allan heim leggja nú áherslu á að kveðja áratuga gamlar hugmyndir um verkferla og þjónustu og horfa í meira mæli til nýrra tíma þar sem þjónustan við íbúa og fyrirtæki er að miklu leyti stafræn, starfsfólk vinnur í verkefnamiðuðu umhverfi, gögn eru hagnýtt til að bæta ákvörðunartöku og sjálfbærni sett í forgang.  

 

Stafræn umbreyting er komin til að vera. Sveitarfélög þurfa að móta stefnu í þessum málum og fylgja þeirri þróun sem á sér stað allt í kringum okkur. Upplýsingatæknikerfi sveitarfélaga þurfa að styðja við aukinn hraða í þróun, sjálfvirkni og gagnavinnslu og huga þarf að samvirkni innri og ytri kerfa .