Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Stekkagil eða Geirs­eyr­argil?

Athygli Vest­ur­byggðar hefur verið vakin á því að gil eitt á Patreks­firði, sem hefur verið mikið í deigl­unni undan­farið vegna krapa­flóða fyrr og síðar, gengur undir þremur nöfnum: Stekkagil, Stekkj­argil og Geirs­eyr­argil, þó Patreks­firð­ingar tali oftast bara um Gilið. Sveit­ar­fé­lagið vill með öllu móti koma í veg fyrir að þetta hitamál valdi samfé­lags­legri skautun og telur brýnt að ákveða hvert þessara örnefna það notar héðan í frá, að sjálf­sögðu í samráði við bæjarbúa. Að því tilefni hefur verið efnt til kosn­inga út febrú­ar­mánuð, tengil má finna hér neðst í frétt­inni.

Hér verður drepið á sögu örnefn­anna sem og notkun þeirra í nútíma­heim­ildum, í þeirri von um að það auðveldi valið:


Skrifað: 15. febrúar 2023

Nafnið Geirseyrargil er dregið af eyrinni Geirseyri, þar sem áður stóð jörð með sama nafni. Jarðarinnar er ekki getið í Landnámabók en fyrstu vísun til hennar, árið 1467, má finna í skiptgerningi eftir Björn ríka Þorleifsson, hirðstjóra á Skarði, en jörðin hafði verið í hans eigu. Óvíst er hvaðan eyrin dregur nafn sitt upprunalega en munnmæli segja að þar hafi landnámsmaður að nafni Geir fyrst stigið á land. Líklega hafi þá eyrin verið nefnd eftir honum, enda hefði talist ótrúlegt ef fyrsti ábúandi jarðarinnar hafi fyrir tilviljun heitið sama nafni og eyrin sem hún stóð á.

Draga má þá ályktun að nafnið Stekkagil, sem virðist vera Patreksfirðingum tamara, dragi nafn sitt upprunalega af nafnorðinu stekkur, orð yfir fjárrétt með lambakró, og sé myndað með eignarfalli fleirtölu, það er „stekka“. Nafnið Stekkjargil má einnig finna í nokkrum heimildum og mun það komið af sömu rót nema myndað með eignarfalli eintölu, það er „stekkjar“. Fleiri staðir á Patreksfirði draga nafn sitt af þessari rót, þá má sérstaklega nefna Stekkaból og götuna Stekkar. Í heimildum frá Þjóðminjasafni Íslands frá 1981, eftir ónefndan höfund, segir um stekka:

Margt bendir til svo sem sagnir herma að þjóðin hafi lifað mikið á sauðamjólk fram yfir síðustu aldamót, ekki einungis eftir að fært var frá heldur voru ærnar látnar hlaupa um stekk nokkurn tíma fyrir fráfærur. Á mínu heimili var nokkrum árum eftir að hætt var að færa frá, ærnar hafðar við stekk í vikutíma. Þe. lömbin tekin að kvöldi, sett í hús eða tóft sem byggt var yfir, ærnar hafðar úti, en smalað og reknar í rétt að morgni og mjólkaður annar speninn, aðeins teknar einlembar ær. Lömbunum svo hleypt út til mæðranna. Var þetta kallað að láta ærnar hlaupa um stekk. Nokkur örnefni eru enn til um þetta t.d. Stekkur, Litli Stekkur og Stekkagil.

Taka skal fram að heimildarmaður á hér við Stekkagil í Norðfjarðarsveit.

Hvort tveggja örnefnanna, Stekkagil og Stekkjargil, má finna víðs vegar um landið. Samkvæmt örnefnasjá Landmælinga Íslands má til dæmis finna Stekkagil í Norðfjarðarsveit og í Húsavík á norðanverðum Austfjörðum. Stekkjargil má finna enn víðar, þar má nefna Stekkjargil neðan í Hlaðshvilft í Dýrafirði og úr Borgargerðisfjalli við Skagafjörð.

Sé notkun þessara örnefna skoðuð frá árinu 1983, þegar krapaflóð féll niður umrætt gil, má sjá að stofnanir og fræðimenn hafa að mestu leyti tamið sér að nota Geirseyrargil. Alls er óvíst hvers vegna en álykta má að það væri skilmerkilegra fyrir sérfræðingana að sunnan því ekkert annað gil á landinu er skráð með þessu nafni. Þar af leiðandi mætti koma í veg fyrir að því væri ruglað saman við önnur Stekkagil/Stekkjargil á landinu og þyrfti ekki að taka fram að um væri að ræða Stekkagil/Stekkjargil á Patreksfirði. Nafnið Geirseyrargil má meðal annars finna í hættumatsskýrslum Veðurstofu Íslands og í Jökli, tímariti Jöklarannsóknafélags Íslands og Jarðfræðafélags Íslands, allt aftur til ársins 1984. Örnefnið er einnig notað í bókinni Krapaflóðin á Patreksfirði 1983 eftir Egil St. Fjeldsted, en hann nefnir í bókinni „að Geirseyrargil er einnig nefnt Stekkagil, Stekkjargil og jafnvel Gilið hjá Patreksfirðingum.“ Finna má notkun beggja örnefna í íslenskum dagblöðum en Morgunblaðið hefur oftast notað orðið Stekkagil og gerði það fyrst árið 1986. Það nafn má einnig finna í örnefnalýsingu Kristjáns Jónssonar á Stekkjum á Patreksfirði, sem finna má í Örnefnasafni Árnastofnunar.

Nú er tími Patreksfirðinga til að láta rödd sína heyrast og kjósa í skoðanakönnuninni hér fyrir neðan um það nafn sem Vesturbyggð mun nota um gilið í umfjöllun sinni.