Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 5 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Stóru upplestr­ar­keppn­inni lokið

Í gær, fimmtu­daginn 12. mars, var loka­hátíð Stóru upplestr­ar­keppn­innar fyrir grunn­skóla á sunn­an­verðum Vest­fjörðum haldin hátíðleg í Félags­heimili Patreks­fjarðar. Til keppni voru mættir 8 nemendur.

 


Skrifað: 13. mars 2020

Stóra upplestrarkeppnin er haldin að frumkvæði Radda, áhugafólks um íslenkst mál, ár hvert í samstarfi við skóla, kennara og nemenda í 7. bekk. Skáld keppninnar í ár voru þeir Birkir Blær Ingólfsson og Jón Jónsson úr Vör. Það var skemmtilegt fyrir íbúa svæðisins þar sem Jón úr Vör fæddist og ólst upp á Vatneyri við Patreksfjörð og ljóð hans úr ljóðabókinni ,,Þorpið” eru til sýnis á víð og dreif um Patreksfjarðarbæ.

Með sanni má segja að ungmennin stóðu sig með prýði enda þrotlausar æfingar að baki.  Þriðja sætið í keppninni hreppti Óliver Logi S. Bjartsson og Tryggvi Sveinn Eyjólfsson lenti í öðru sæti. Sigurvegari keppninnar í ár var Fjölnir Úlfur Ágústsson. Allir verðlaunahafarnir koma úr Patreksskóla.

Til viðbótar við upplestur fengu gestir að njóta flutnings Vilborgar Lífar Eyjólfsdóttur og Sólrúnar Elsu Steinarsdóttur nemenda í Tónlistarskóla Vesturbyggðar en Sólrún Elsa var einnig ein af keppendum í ár. Annar keppandi, Bartosz Jan Czubaj, flutti gestum til skemmtunar ljóð á móðurmáli sínu, pólsku, við góðar undirtektir.

Það er óhætt að segja að hlakka má til framtíðarinnar með svona flott ungmenni reiðubúin að taka við keflinu.

Keppendur voru Sverrir Elí Fannarsson úr Bíldudalsskóla, Fjölnir Úlfur Ágústsson, Óliver Logi S. Bjartsson, Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, Sigurbjörg Helga Rögnvaldsdóttir, Rakel Sara Sveinsdóttir Berg, Sólrún Elsa Steinarsdóttir og Bartosz Jan Czubaj öll úr Patreksskóla.