Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Sumarið að koma eftir mildan vetur

Aftur er að koma sumar og aftur er starfs­fólk Vest­ur­byggðar að undirbúa fram­kvæmdir sumarsins. Sumarið 2020 fór ekki alveg eins og við vonuð­umst eftir þegar kemur að fram­kvæmdum í sveit­ar­fé­laginu, þó fór það svo að í sumum verkum gekk vel en á öðrum stöðum þarf veru­lega að gefa í.


Skrifað: 3. maí 2021

Fréttir

Það hefur borið á því að til þeirra sem fara með verklegar framkvæmdir hafi borist nokkur erindi frá bæjarbúum þar sem áréttað er hvaða verkefni það eru sem bæjarbúum finnst nauðsynlegt að bæta úr. Bæði er þar um öryggi einstakra svæða að ræða en meira samt um umhverfismál sem þarfnast athygli og úrbóta. Þar ætlum við að gera okkar besta til að bæta úr.

Haldið verður áfram að vinna að þeim ábendingum sem okkur bárust í umhverfisgöngum enda var þar af nægu að taka og ýmis brýn verkefni sem verða tekin fyrir í sumar. Vonandi verður svo framhald á þeim góða viðburði þannig að tækifæri gefist til að uppfæra verkefnalista. Enn eru líka eftir veigamiklar tiltektaráætlanir sem unnið er að.

Holuviðgerðir munu byrja á allra næstu dögum en lögð verður áhersla á að fara vel í þær götur sem hvað verst urðu úti vegna þess mikla klaka, rigninga og þíðu sem var seinni part vetrar.

Götuhreinsanir munu líka fara fram á næstu vikum en unnið verður eftir svipaðri sviðsmynd og undanfarin ár þar sem fengin verður götusópur til að sinna því verki.

Af einstaka framkvæmdum sem bæjarbúar munu verða varir við í sumar eru eftirfarandi verk í bígerð:

Farið verður í uppsetningu á gangbrautarljósum yfir Strandgötu við Vélsmiðju Loga, þar hefur verið bent á að lagfæra þurfi og tryggja betur umferð gangandi vegfarenda. Stefnt verður á að klára jafnframt stétt og umhverfi við göngubrúnna yfir Mikladalsá. Áfram verður unnið að lagningu nýrra gangstétta, en verið er að horfa til þess að klára gatnamót Aðalstrætis og Þórsgötu ásamt því að unnið verður í að koma á betri götulýsingu þar sem við á. Haldið verður áfram að vinna við gangstétt ofan við sýsluskrifstofu en markmiðið þar er að komast af stað upp Sigtúnið. Vonast er eftir að hægt verði að klára lítinn gangstéttarbút neðan kirkju til að auðvelda gangandi ferðina milli safnaðarheimilis og kirkju. Farið verður af stað með að gera nýja gangstétt frá apóteki yfir að Landsbanka og ef tími vinnst til verður farið í viðgerð á gangstétt umhverfis Friðþjófstorg. Unnið er í því að klára lagfæringu á göngustíg milli Bala og Brunna en þar þarf að endurnýja stoðvegg í götunni sem tengist þeim stíg. Einnig er áfram verið að skoða lausnir í gangstéttar tengingu milli Aðalstrætis og Strandgötu en á þeim kafla er mjög erfið tenging. Farið verður í að gera grindverk meðfram gangstéttum þar sem þær þykja hættulegastar.  Klárað verður að færa þær plöntur sem beðið hafa þolinmóðar við Mýra og Hóla en stefnan er að gera okkar besta til að gróðursetja sem mest af þeim plöntum í samráði við garðyrkjufræðing. Þær plöntur sem eru komnar niður og þarfnast afréttingar verða lagaðar. Ný göngubrú verður sett niður milli tjaldstæðis og Sigtúns en sú brú sem nú er til staðar er óörugg. Vinnuskóli fer af stað í byrjun júní og vonumst við eftir að sá hópur verði jafn duglegur og eftirtektarverður og síðustu ár. Það mæðir mikið á þeim hóp er kemur að fegrun bæjarins og því mikilvægt að við höldum áfram að hvetja þetta unga verkafólk sem vinnur fyrir okkur með jákvæðum hætti.

Gangstéttar verða lagðar við Kirkjuveg á Bíldudal þær munu ramma betur inn næsta nágrenni Bíldudalskirkju í því fallega umhverfi sem hægt er að gera. Þessi vinna var líka ráðgerð síðasta sumar en nú verðum við einfaldlega að klára þá gangstétt. Einnig verður lögð áhersla á að gera við gangstéttar þar sem þess þarf við verðum að lagfæra eða láta þá sem í framkvæmdum standa lagfæra framkvæmdasár þar sem þau eru. Ný vatnslögn verður lögð niður með Baldurshaga en sú lögn er liður í að endurnýja stofnlögn niður á hafnarsvæðið en gangstétt verður endurnýjuð að þeirri framkvæmd lokinni. Girðing milli Bíldudalsskóla og Dalbrautar er komin í bæinn þannig að vænta má þess að hún verði sett upp í sumar áfram verður þrýst á að komið verði upp betri lýsingu við leiksvæði skóla. Áfram verður horft til þess að málaðar verði gangbrautir við ýmsa staði og settar góðar merkingar við þær á sem flestum stöðum í sveitarfélaginu en þar getum við gert mun betur.

Farið verður í ýmis viðhaldsverkefni í sumar. Hafist verður handa við lagfæringar á tröppum og þrepum á skólalóð Patreksskóla, klárað verður að endurnýja síðasta salernið í skólanum ásamt því að lagfæringar verða á þakrennum og niðurföllum á skólahúsnæðinu. Í Bíldudalsskóla er verið að horfa til þess að koma fyrir hitalögn í útitröppum, ýmis smávægileg viðhaldsverkefni, en einnig er verið að vinna að hönnun á nýju útisvæði við leikskólann Tjarnarbrekku á Bíldudal.

Vonast var eftir að klárað yrði að klæða og mála félagsheimilið Birkimel Barðaströnd en til þess verks fundust ekki iðnaðarmenn og því fórst það fyrir að klára verkið. Við stefnum á að klára það verk í ár.

Þessi verkefni sem að framan greinir eru eingöngu hluti þeirra framkvæmda sem Vesturbyggð vonast eftir að vinna í sumar og haust að auki þessara framkvæmdir ætlum við að malbika í sumar hina ýmsu staði sem auglýstir verða betur er nær dregur en dagsetningar þeirra framkvæmda verða á bilinu 15. júni til 15. júlí ef væntingar standast. Að auki verður svo að sjálfsögðu haldið áfram með ofanflóðavarnir ofan við Patreksfjörð en sú framkvæmd hefur sett svip sinn á ásýnd bæjarins undanfarið ár.

Það hefur verið talið upp töluvert af framkvæmdum í þessum pistli þó hefur ekki enn verið rætt um hafnir Vesturbyggðar en þar er staðið í ýmsum stórframkvæmdum þessa mánuðina og mikið um að vera. En í sumar er áformað að klára að steypa þekju á Bíldudalshöfn sem er lokahnykkurinn í stórframkvæmd sem staðið hefur yfir frá því vorið 2021, þá er í fullum gangi framkvæmd við landfyllingu á Bíldudal sem einnig er áformað að ljúka núna í sumar. Á þeirri landfyllingu skapast langþráð svæði fyrir iðnaðarhúsnæði ásamt geymslusvæði. Samhliða þessum framkvæmdum á Bíldudal verður farið í snyrtingu umhverfis við Bíldudalshöfn og hlið sett upp við hafnarsvæðið.

Á Patreksfirði verður einnig unnið að snyrtingu umhverfis ofan við smábátabryggju, steypt verður þvottaplan fyrir báta við Vatnskrók ásamt malbikun á því svæði, þá verða masturshús máluð. Endurnýjun dekkja við hafskipakant er að hefjast og svo verður lagður nýr vegur frá Eyrargötu að iðnaðarhúsum á hafnarsvæðinu.

Við Brjánslækjarhöfn stendur til að malbika bílastæðið, snyrta umhverfi umhverfis hafnarsvæðið og lagfæra og mála masturshús, þá stendur til á árinu að klára deiliskipulag fyrir hafnarsvæðið sem hluti af undirbúningsvinnu fyrir fyrirstöðugarð og nýja flotbryggju sem setja á í framkvæmd 2022.

Það er ósk okkar að íbúar og fyrirtæki taki vel við sér og hjálpi okkur að gera sveitarfélagið betra með því að huga með okkur að því að bæta nærumhverfi okkar allra.

Gleðilegt Sumar!

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Geir Gestsson geir@vesturbyggd.is / 450 2300