Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 4 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Þjóð­lendumál í Barða­strand­ar­sýslum

Óbyggðanefnd hefur til meðferðar þjóð­lendumál á svæði 10C í Barða­strand­ar­sýslum. Kröfur fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóð­lendur á svæði 10C bárust óbyggðanefnd 15. apríl 2019, sbr. 10. gr. þjóð­lend­u­laga, nr. 58/1998, og þær voru í fram­haldinu kynntar með lögform­legum hætti. Þær ná til fimm svæða sem eru í kröf­u­lýs­ing­unni nefnd Hvanna­hlíð, Skálm­ar­dals­heiði, Auðs­haugs­land, Vatns­fjörður og Bæjar­bjarg.


Skrifað: 13. desember 2019

Auglýsingar

Þjóðlendukröfur ríkisins voru síðan kynntar og skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á landsvæðum sem féllu innan viðkomandi svæða að lýsa kröfum fyrir óbyggðanefnd. Frestur til þess var upphaflega veittur til 16. ágúst 2019 en framlengdur til 15. nóvember 2019. Innan þess frests bárust kröfulýsingar vegna fimm jarða og athugasemdir vegna einnar jarðar.

Kynning á heildarkröfum skv. 12. gr. þjóðlendulaga stendur yfir 12. desember 2019 – 24. janúar 2020. Athugasemdafrestur er til 31. janúar 2020

Kynningargögn, þ.e. allar kröfulýsingar og athugasemdir sem borist hafa ásamt kröfulínukortum, er að finna hér fyrir neðan auk þess sem gögnin hafa verið send öllum skrifstofum sýslumannsins á Vestfjörðum og viðkomandi sveitarfélögum, Reykhólahreppi og Vesturbyggð, með beiðni um að hafa þau tiltæk til loka athugasemdafrests. Einnig eru gögnin fáanleg á skrifstofu óbyggðanefndar.

Að athugasemdafresti liðnum rannsakar óbyggðanefnd málið en það felur m.a. í sér gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði sú rannsókn í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu verður viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.