Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Þriðja dagbók bæjar­stjóra

Fyrir u.þ.b. mánuði síðan eða í kringum síðasta bæjar­stjórn­ar­fund var fjöl­breyti­leikinn mikið til umræðu, af hverju sem hann stafar. Mikil umræða var um einelti á landsvísu og hinsegin fólk átti undir högg að sækja. Eins og við vitum jafn­framt koma alltaf upp fordómar gagn­vart fólki af erlendum uppruna.


Skrifað: 6. desember 2022

Dagbók bæjarstjóra

Nauðsynlegt er að við höldum áfram að fræða og fræðast um fólk sem er öðruvísi en maður er sjálfur. Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Samtökin 78 um þjónustu við skólana okkar og leikskóla og foreldrasamfélagið auk þess sem haldnir verða opnir fræðslufundir. Munum bara að við eigum öll rétt á því að vera við sjálf, vera hluti af hóp og fá að taka þátt í því samfélagi sem við búum í. Við eigum öll rétt á að vel sé komið fram við okkur og við eigum öll að koma vel fram við aðra.

Starfshópar á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum

Tveir starfshópar voru stofnaðir á síðasta fjórðungsþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga, starfshópur fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum um skiptingu tekna fiskeldissjóðs og starfshópur um samstarf í velferðarþjónustu á Vestfjörðum.

Starfshópur fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum hefur fundað reglulega og vinnur að tillögum um skiptingu þeirra tekna sem nú fara til fiskeldissjóðs með öðrum hætti en nú er. Fiskeldissjóður er sjóður sem sveitarfélög í fiskeldi geta sótt um í, en enginn fyrirsjáanleiki tekna er ekki til staðar og um samkeppnissjóð er að ræða sem sveitarfélög telja óþörf milli sveitarfélaganna sem standa að uppbyggingu innviða í tengslum við fiskeldi.

Starfshópur um samstarf í velferðarþjónustu sveitarfélaga á Vestfjörðum hefur jafnframt fundað og hefur verið ákveðið að fá sérfræðing til að vinna tillögu að auknu samstarfi í velferðarþjónustu sveitarfélaganna og eftir atvikum að innleiða slíkt samstarf. Aðallega er horft til verkefna er tengjast barnaverndarþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og móttöku flóttafólks. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu verkefni, ég tel að samstarf meðal sveitarfélaganna geti aukið gæði þjónustunnar og stuðning við starfsfólk sveitarfélaganna.

Ráðstefnur og fundir í tengslum við sjávarútveg

Ég skellti mér á ráðstefnuna Lagarlíf í Reykjavík, ráðstefnu um eldi og ræktun. Þar hlýddi ég á erindi fulltrúa allra aðila sem standa að fiskeldi á Íslandi, áherslur þeirra og stöðu greinarinnar. Enn fremur voru erindi sem framtíðarsýn og þróun greinarinnar. Það var gegnum gangandi vilji fiskeldisfyrirtækjanna til sjálfbærni, umhverfisaðgátar og dýravelferðar. Mikil þróun hefur verið á búnaði undanfarin ár og heldur áfram. Það stefnur í mikil orkuskipti í starfsemi fiskeldis.

Ég fór norður á Ísafjörð og tók þátt í fundarröð matvælaráðherra um Auðlindina okkar. Það var fjölmennt á ráðstefnunni, en litið er á fundina sem upplýsingaöflun fyrir starfshópa sem matvælaráðherra skipaði til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum, sem og að greina þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Starfshóparnir eru fjórir, Samfélagið, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.

Við funduðum með Þorsteini Mássyni framkvæmdastjóra Bláma vegna orkuskipta brunnbáta og þjónustubáta á sunnanverðum Vestfjörðum. Þorsteinn kynnti hugmynd að verkefninu fyrir fulltrúum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, en hugmyndirnar eru á frumstigi, en áætlað er að vinna að kostnaðar- og verkáætlun og leitast síðan eftir þátttöku og fjármögnun.

 

Lagarlíf

Heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir

Ég fór í nokkrar mjög skemmtilegar og þarfar heimsóknir á tímabilinu, ýmist ein eða með fulltrúa bæjarstjórnar. Ég mun fara í fleiri heimsóknir á næstu vikum.

Ég heimsótti Odda og fékk að sjá vinnsluna bæði á hvítfiski og eldisfiski. Einn stærsta atvinnurekanda Vesturbyggðar. Verksmiðjan er vel tækjum búin og hefur verið að uppfæra tækjabúnað undanfarin ár bæði í vinnslu hvítfisks og eldisfisks, en þrátt fyrir að um sitthvora vinnsluna sé að ræða tel ég ljóst að það er mikil hagræði af því að hafa báðar tegundir í vinnslu með samnýtingu starfsmanna.

 

Við Jón Árnason tókum svo rúnt á Bíldudal, þar sem við heimsóttum bæði Íslenska kalkþörungarfélagið og Hafkalk. Hafkalk er eina fyrirtækið í Vesturbyggð sem nýtir hráefni sem búið er til kalkþörungunum í verksmiðju Íslensku kalkþörungafélagsins, en við fengum góðar upplýsingar um það hversu heilsueflandi varan er og rík af steinefnum. Hjá Íslenska kalkþörungafélaginu var rætt um þau kalkþörungasvæði í Arnarfirði sem verið er að vinna kalkþörunga upp úr, enn er mikið magn á svæðinu og heimild til vinnslu til nokkurra ára. Við ræddum einnig um möguleg önnur svæði til vinnslu, en ekki var búið að taka ákvörðun um hvort sótt yrði um þau svæði að svo stöddu.

Heimsókn í Hafkalk

Ég fór í heimsókn að Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti í fyrsta skipti á ævinni og fékk góðan túr um sýninguna. Mér fannst mjög gaman að sjá hvað nýi og gamli hluti safnsins eru ólíkir, nýi alveg í takt við nútímasafn með margmiðlun smá upplifun, á meðan gamli hluti safnsins er næstum orðinn safn í sjálfu sér, með ótal hluti út um allt. Í þessa heimsókn tók ég son minn, enda starfsdagur í skólanum og við mæðginin voru virkilega hrifin.

Minjasafnið á Hnjóti

Að lokum kíktum við Valgerður María Þorsteinsdóttir, ferðamála- og menningarfulltrúi til Maríu Óskarsdóttur og Halldórs Árnasonar sem reka safn um franska sjómenn sem voru við veiðar við Íslandslandsstrendur, þar var margt áhugavert að sjá og ótrúleg vitneskja sem þau eru búin að safna í gegnum tíðina.

María, Valgerður María og Halldór

Björgunarsveitamál

Vesturbyggð styrkti björgunarsveitir Kóps og Blakks með kaupum á Björgunarsveitarmanninum.

Einnig höfum við fundað með Björgunarsveitinni Blakki vegna samninga við sveitina og munum funda með Björgunarsveitinni Kópi á næstu dögum.

Siggeir að afhenda Þórdísi Neyðarkall

Óformlegar sameiningaviðræður

Í byrjun nóvember hittust bæja­stjórn Vest­ur­byggðar og sveit­ar­stjórn Tálkna­fjarð­ar­hrepps. Var þessi hitt­ingur í fram­haldi af ákvörðun þeirra beggja fyrr á árinu um að hefja óform­legar viðræður um stofnun nýs sveit­ar­fé­lags á sunn­an­verðum Vest­fjörðum. Farin var skoðunarferð um Bíldudal, Tálknafjörð og Patreksfjörð og tekið samtal um með hvaða hætti viðræður sveitarfélaganna verði skipulagðar. Bæði sveitarfélög hafa samþykkt að ganga til samninga við KPMG vegna ráðgjafar við verkefnið, skipaðir hafa verið fulltrúar í verkefnastjórn og óformlegar viðræður sveitarfélaganna munu halda áfram. Samráð við íbúa er hluti af þeirri vinnu sem fram undan er. Sveitarfélögin eiga margt sameiginlegt og góð samvinna hefur einkennt starfsemi þeirra undanfarin ár. Ljóst er að samgöngumál verða efst á lista yfir áherslu sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu í viðræðum sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og bæjarstjórn Vesturbyggðar ásamt framkvæmdastjórum og ráðgjöfum frá KPMG

Fundur með Vegagerðinni

Við áttum mjög fínan fund með fulltrúum Vegagerðarinnar, þar sem Vegagerðin fór yfir þau verkefni sem eru á áætlun Vegagerðarinnar og þjónustu. Það er ljóst að auka þarf fjármagn til Vegagerðarinnar hefur ekki aukist í takt við breytingar á verðlagi og eru þau t.a.m. að fá sama fjármagn í þjónustu vega 3 ár í röð. Við tökum undir það með Vegagerðinni að þörf sé á auknu fjármagni í þjónustu, þ. á m. snjómokstur og viðhald vega. Vesturbyggð lagði enn fremur áherslu á að vegaframkvæmdirnar um Gufudalssveit yrði í samræmi við áætlun, að fundin yrði varanleg lausn á ferjumálum yfir Breiðafjörðinn, meiri opnun á vegum yfir vetrartímann auk umræðna um jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán.

Fundur með menningar- og viðskiptaráðherra og þingmönnum Framsóknar

Framsóknarflokkurinn var með flokksþing á Ísafirði í nóvember. Í tilefni af því bauð Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fulltrúum sveitarfélaganna og þingmönnum Framsóknar. Við fórum yfir helstu áherslumál sveitarfélagana í þeim málefnum er tengjast sviði ráðherrans, þar á meðal ferða- og safnamálum.

Lilja sagði frá stefnumótunarvinnunni sem er í gangi, áherslu á lengingu ferðamannatímabilsins og Vestfjarðaleiðarinnar. Enn fremur lagði hún áherslu á safnamál á svæðinu.

Stjórnendafundir

Í nóvember héldum við fyrsta stjórnenda fundinn okkar sem við ætlum að hafa mánaðarlega. Á stjórnendafundi eru allir stjórnendur Vesturbyggðar, deildarstjórar, sviðsstjórar og bæjarstjóri. Megintilgangurinn er að upplýsa um ýmis málefni er varðar stjórnendur sveitarfélagsins sérstaklega, eins og fjárhagsáætlun, mannauðsmál og verklag. Við teljum mikilvægt að eiga samtal við stjórnendur í sveitarfélaginu, þar sem við fræðumst um verkefni hvors annars, við fáum betri innsýn inn í störf hvors annars, hvaða áherslur eru í gangi hverju sinni og hvað við teljum sem stjórnendur geti bætt þjónustu við íbúa, gert samfélagið betra og meiri starfsánægju.

Fjárhagsáætlun

Fyrri umræða fjárhagsáætlunar var lögð fram á bæjarstjórnarfundi 23. nóvember s.l., seinni umræðan verður í bæjarstjórn 14. desember.  Greinargerð verður lögð fram á næsta fundi bæjarstjórnar.

Ýmislegt skemmtilegt í gangi

Heimildarmyndahátíðin Skjaldbakan var haldin í nóvember sem sýndi heimildamyndir eftir krakka. En í haust fengu nemendur miðstigs  Patreksskóa örnámskeið í heimildamyndagerð og afrakstur þeirra ásamt myndum frá einum grunnskóla í Reykjavík og grunnskólanum á Seyðisfirði sýndur. Forsvarsmenn Skjaldborgarhátíðarinnar stóðu fyrir Skjaldbökunni. Ég vona svo sannarlega að afraksturinn verði varðveittur þar sem um er mjög góða heimild að ræða, Patreksfjörður frá sjónarhorni barna árið 2022.

Þar sem ég er svo heppin að eiga barn á miðstigi Patreksskóla fékk ég jafnframt boð á kynningu á verkefni nemenda. Kynningin var á verkefni þar sem hvert og eitt þeirra hafði valið sér land til að vinna með og áttu svo að kynna. Þau fengu frjálsar hendur um hvernig löndin yrðu kynnt, en buðu jafnframt upp á mat frá því landi sem þau völdu. Virkilega skemmtilegur viðburður sem var haldinn í hádeginu.

Kvenfélagið Sif var á dögunum að fást við iðju sem ég hafði aldrei áður séð, en það var að undirbúa punga fyrir þorrablótið. Ég mætti á svæðið rétt í lokin til að forvitnast um þetta og hlaut því pungapróf.

Tómstundadagurinn var svo haldinn í Félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem flest ef ekki öll félagasamtök á svæðinu kynntu sín verkefni. Sem dæmi má nefna víkingafélag, sjósundsfélag, góðgerðarfélög, fablab og fleira. Það er gott félagslíf á svæðinu ef fólk hefur áhuga á að taka þátt og hvet ég öll til að finna sér félagskap við hæfi og njóta samveru með ólíku fólki.

Nemendur sem tóku þátt í Skjaldbökunni