Þyrla á sveimi vegna ofanflóðavarna
Eflaust hafa einhverjir bæjarbúar á Patreksfirði velt því fyrir sér hvers vegna þyrla var sveimandi yfir bæjarmörkunum í dag.
Þyrlan er að vinna í ofanflóðavörnum í Stekkagili. Verið er að undirbúa uppsetningu stoðvirkja efst í gilið. Tilgangur stoðvirkjanna er að hindra að snjór fari af stað efst í gilbarminum.
Stoðvirkin sjálf verða sett upp í ágúst en í þessari framkvæmd er unnið að því að steypa niður festingar og undirstöður. Einnig er unnið í því verkefni að hreinsa laus grjót af framkvæmdasvæði efst í Stekkagili og því mikilvægt að fólk fari ekki upp í gilið næstu vikur.