Hoppa yfir valmynd

Tillaga að endur­skoðuðu starfs­leyfi fyrir Arctic Smolt

Umhverfis- og orku­stofnun hefur unnið tillögu að endur­skoðuðu starfs­leyfi fyrir Arctic Smolt ehf. í Norður-Botni í Tálkna­firði. Um er að ræða seiða­eldi á laxfiskum með allt að 2.400 tonna hámarks­líf­massa.


Skrifað: 9. apríl 2025

Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar samkvæmt 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 22. júní 2022 og var niðurstaðan sú að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Varðandi þá þætti sem snúa að starfsleyfinu verða helstu áhrif starfseminnar, að mati Umhverfis- og orkustofnunar, losun næringarefna í viðtakann. Í starfsleyfinu eru ákvæði um að rekstraraðili skuli tryggja viðunandi hreinsun með hreinsibúnaði og vakta losunina. Að auki er gerð krafa um að rekstraraðili sé með vöktunaráætlun þar sem vöktun er útfærð nánar, m.a. vöktun á strandsjávarvatnshlotinu skv. lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Hægt er að endurskoða fyrirkomulag hreinsunar á fráveitu frá eldinu og gera auknar kröfur bendi mælingar til þess að hreinsun sé ábótavant. Þá er einnig hægt að endurskoða fyrirkomulag vöktunar út frá losun og áhrifum á vatnshlotið sem rekstraraðili losar í.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfis- og orkustofnun á netfangið uos@uos.is, merktar UST202207-136. Athugasemdir verða birtar við útgáfu. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 8. maí 2025.

Tillöguna ásamt fylgigögnum má nálgast á síðu Umhverfis- og orkustofnunar.