Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 6 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Sérreglur um úthlutun byggða­kvóta

Tillaga að sérreglum um úthlutun byggða­kvóta fisk­veiði­árið 2018/2019:

Á 861. fundi bæjar­ráðs í dag var eftir­far­andi bókað vegna úhlut­unar byggða­kvóta fisk­veiði­árið 2018/2019:


Skrifað: 29. janúar 2019

,

Erindi vísað til bæjarráðs frá 330. fundi bæjarstjórarnar. Iða Marsibil Jónsdóttir varaformaður bæjarráðs í fjarveru Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur lagði fram eftirfarandi sérreglur um byggðakvóta:

  • Ákvæði b. lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Eru skráð í viðkomandi sveitarfélagi 1. júlí 2018.
  • Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi sveitarfélags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2017 til 31. ágúst 2018, þó ekki hærra en 20% af því sem eftir stendur, en að hámarki 25 þorskígildistonn á hvert fiskiskip.
  • Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr. d) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019.

Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu. Iða Marsibil Jónsdóttir, Jörundur Garðarsson og María Ósk Óskarsdóttir greiða atkvæði með tillögunni. Ásgeir Sveinsson, greiðir atkvæði á móti. Friðbjörg Matthíasdóttir situr hjá við afgreiðslu máls. Magnús Jónsson lýsir sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu málsins.

Úthlutun byggðakvóta
Sveitarfélaginu Vesturbyggð var úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 með eftirfarandi hætti:

  • Brjánslækur 15 þorksígildistonn
  • Patreksfjörður 46 þorskígildistonn
  • Bíldudalur 88 þorksígildistonn

Á fiskveiðiárinu 2017/2018 kom til úthlutunar byggðakvóti sem nam samtals 310 þorksígildistonnum.

Eftirstöðvar byggðakvóta frá fiskveiðiárinu 2017/2018, sem færist á milli ára er eftirfarandi:

  • Brjánslækur 2,7 þorskígildistonn
  • Patreksfjörður 1,2 þorskígildistonn
  • Bíldudalur 63,8 þorskígildistonn

Heildarmagn byggðakvóta í Vesturbyggð til úthlutunar til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019 eru því samtals 216,7 þorskígildistonn.

Skilyrði fyrir úthlutun aflamarks
Í 1. gr. reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 685/2018 er eitt þeirra skilyrða sem fiskiskip skal uppfylla að viðkomandi skip sé skráð í viðkomandi byggðalagi 1. júlí 2018. Byggðalag er skilgreint sem byggðakjarni sem liggur að sjó og háður er veiðum og/eða vinnslu sjávarafla. Í Vesturbyggð eru þrjú byggðalög skilgreind, Brjánslækur, Patreksfjörður og Bíldudalur. Byggðalögin tilheyrðu áður sveitarfélögunum Barðastrandahreppur, Patrekshreppur og Bíldudalshreppur sem sameinuð voru árið 1994 í sveitarfélagið Vesturbyggð. Í tillögum Vesturbyggðar er því lagt til það skilyrði að fiskiskip sem geti sótt um byggðakvóta sé skráð í sveitarfélaginu en ekki einstökum byggðalögum innan þess. Þannig geti viðkomandi fiskiskip sem skráð er t.d. á Brjánslæk sótt um að fá úthlutað af þeim byggðakvóta sem úthlutað er á Patreksfirði eða Bíldudal og svo öfugt. Þannig eigi öll fiskiskip sem skráð eru í sveitarfélaginu Vesturbyggð og uppfylla að öðru leyti skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar kost á að sækja í allt það magn sem úthlutað hefur verið til allra byggðalaga sveitarfélagsins.

Viðmiðanir um úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa
Í 4. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um viðmiðanir um úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa. Með vísan til þess að öll skráð fiskiskip í Vesturbyggð geti sótt um úthlutun byggðakvóta er lagt til að aflamarkinu verði skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi sveitarfélags miðað við landaðan botnsfiskafla, en tiltekið þak verði sett á það, hvað hvert og eitt fiskiskip getur fengið úthlutað. Í tillögum Vesturbyggðar er því lagt til að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verði svohljóðandi:
„Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi sveitarfélags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2017 til 31. ágúst 2018, þó ekki hærra en 20% af því sem eftir stendur, en að hámarki 25 þorskígildistonn á hvert fiskiskip.“

Með framangreindri takmörkun er þeim aðilum sem óska eftir að fá úthlutað byggðakvóta tryggt ákveðið jafnræði til úthlutnar byggðakvóta. Með takmörkuninni getur þannig hvert fiskiskip aldrei fengið meira en 25 þorskígildistonnum úthlutað og aldrei hærra hlutfall en 20% af því aflamarki sem kemur í hlut byggðalagsins og stendur eftir, þegar tillit hefur verið tekið til hlutfallslegrar skiptingar miðað við landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þroskígildisstuðla. Með þessu er tryggt að einstakir útgerðaraðilar geti ekki fengið úthlutað öllu eða meirihluta þess aflamarks sem úthlutað er til einstakra byggðalaga. Með tillögunni er því verið að tryggja útgerðaraðilum innan sveitarfélagsins jafnan rétt til úthlutunar byggðakvóta sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar í sveitarfélaginu öllu. Áhrif tillögunnar munu einna helst verða þær að stærri útgerðaraðilar, sæki þeir um byggðakvóta, munu ekki fá meira magni úthlutað en sem nemur 25 þorskígildistonnum en minni útgerðaraðilar eiga þess í stað aukna möguleika á að fá úhlutuðum byggðakvóta, en það mun auðvitað taka mið af því hversu mörg fiskiskip sækja um byggðakvóta og hver hlutfallsleg skipting verður miðað við landaðan afla.

Landaður afli og skylda til löndunar til vinnslu
Á fiskveiðiárinu 2018/2019 er ein bolfiskvinnsla í sveitarfélaginu Vesturbyggð og er hún staðsett í byggðalaginu Patreksfirði.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það að afli af fiskiskipum sem landað er í byggðalagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi byggðalags á sama tíma teljist ekki til landaðs afla sem viðmið fyrir úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa. Í tillögum Vesturbyggðar er lagt til að regla þessi haldist óbreytt frá fyrra ári þar sem, aðeins ein bolfiskvinnsla er í sveitarfélaginu og aðeins í einu byggðalagi. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verði svohljóðandi: „Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.“

Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðalaga á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Í samræmi við tilgang úthlutunar byggðakvóta, sem er að bregðast við vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi er lagt til að fiskiskipum verði skylt að landa þeim afla sem telst til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins enda muni það styðja við starfsemi fiskvinnsla í sveitarfélaginu. Í tillögum Vesturbyggðar er lagt til að sérregla þessi haldist óbreytt frá fyrra fiskveiðiári og ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar verði svohljóðandi: „Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019.“

Þrátt fyrir framangreinda sérreglu þá kemur hún ekki í veg fyrir að nýjir vinnsluaðilar í öðrum byggðalögum innan sveitarfélagsins geti tekið við lönduðum afla til vinnslu sem telst til byggðakvóta. Hamlar sérreglan því ekki frekari atvinnusköpun innan sveitarfélagsins hvað þetta varðar.

Verðmætaaukning og atvinnusköpun í Vesturbyggð
Með framangreindum breytingum er stefnt að því að auka enn frekar möguleika til verðmætaaukningar og atvinnusköpunar í byggðalögum sveitarfélagsins en mælt er fyrir um í almennum reglum um úthlutun byggðakvóta. Breytingarnar falla einnig vel að megintilgangi byggðakvótans sem er að stuðla að aukinni atvinnusköpun innan sveitarfélagsins. Framangreindar tillögur eru því lagðar fram með því markmiði að horfa til verðmætaaukningar og atvinnusköpunar í sveitarfélaginu í heild sinni og þannig tryggja útgerðaraðilum innan sveitarfélagsins ákveðið jafnræði við úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2018/2019.

Framangreindar tillögur Vesturbyggðar hafa verið senda til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem mun birta þær til umsagnar, áður en ráðuneytið tekur afstöðu til tillagna Vesturbyggðar og þær verða birtar í Stjórnartíðindum.

Sjá nánar: