Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Tillögur að nýjum og breyttum götu­nöfnum

Á 81. fundi skipu­lags- og umhverf­is­ráðs sem haldinn var þann 15. febrúar voru götu­nöfn á Patreks­firði til umræðu.


Skrifað: 17. febrúar 2021

Auglýsingar, Skipulög í auglýsingu

Á fundinum var eftirfarandi bókað:

Byggingarfulltrúi fór yfir götunöfn á Patreksfirði, víða á hafnarsvæðinu eru götunöfn ekki til staðar og þ.a.l. staðföng ekki rétt. Þá er búið að taka Aðalstrætið í sundur á tveimur stöðun, við Litladalsá og Mikladalsá. Utan við Mýrar eru hjallar og ber vegurinn þar ekkert nafn. Við hafnarkantinn á Patrekshöfn standa mörg hús og kanturinn hefur ekkert skilgreint nafn.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til eftirfarandi nöfn.

  1. Vegur frá Aðalstræti 1 og niður á hafnarkant beri nafnið Hafnargata.
  2. Vegur upp að hjöllum utan við Mýrar verði Fjósadalur.
  3. Hafnarkantur á Patrekshöfn verði Hafnarbakki.
  4. Vegur á milli Þórsgötu og Eyrargötu verði Oddagata.
  5. Aðalstræti 112a-131 verði Björg.

Byggingarfulltrúa falið að auglýsa tillögu ráðsins á heimasíðu Vesturbyggðar og óska eftir athugasemdum og kynna á næsta fundi ráðsins, nýjar tillögur eru velkomnar.

Líkt og segir í bókuninni þá er aðalástæðan fyrir tillögum að nýjum götunöfnum við hafnarsvæði og við Fjósadal sú að engin skilgreind götunöfn eru til staðar. Varðandi Aðalstræti 112a – 131 er ástæðan fyrir tillögu um breytt nafn sú að búið er að skera Aðalstrætið í sundur á tveimur stöðum frá gatnamótum Sigtúns að Aðalstræti 112a, það er s.s. ekki hægt að keyra óhindrað frá Aðalstræti 1 að Aðalstræti 131, sem kallar á nýtt götunafn. Breytingin er einnig hugsuð til einföldunar fyrir viðbragðsaðila, póstinn o.s.frv. Götunafn (staðvísir) má líta á sem línu sem leiðir okkur, svo ekki verði um villst, að þeim stað sem við viljum finna.

Áhugasamir eru einnig hvattir til að kynna sér reglur um skráningu staðfanga sem Þjóðskrá Íslands gaf út 2019.

Handbók um skráningu staðfanga – leiðbeiningar og reglugerð

Handbók um skráningu staðfanga – Notkunardæmi

Vesturbyggð óskar eftir athugasemdum við tillögurnar og skal þeim annaðhvort skilað á tölvupósti á netfangið vesturbyggd@vesturbyggd.is eða í bréfpósti og þá merkt:

Vesturbyggð
Aðalstræti 75
450 Patreksfirði

Athugasemdafrestur er til og með 8. mars 2021. Þá eru einnig nýjar tillögur velkomnar.