Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 4 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Tilslak­anir á samkomu­banni

Mánu­daginn 4. maí nk. taka gildi ákveðnar tilslak­anir á samkomu­banni vegna Covid-19 samkvæmt auglýs­ingu heil­brigð­is­ráð­herra sem má nálgast hér:

 


Skrifað: 30. apríl 2020

Fréttir

Á mánudaginn verða því umtalsverðar rýmkanir á samkomum og skólahaldi. Samkomubann mun miðast við 50 manns og ýmsir þjónustuveitendur geta tekið á móti viðskiptavinum sínum á ný. Frá sama tíma falla niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og einnig fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri.

Stjórnendur sveitarfélagsins hafa því síðustu daga unnið að því að skipuleggja skóla- og frístundastarf vegna tilslakana samkomubannsins innan þeirra takmarkana sem áfram eru í gildi til að minnsta kosti 1. júní nk. Á mánudag hefst því hefðbundin kennsla í skólum í Vesturbyggð. Íþróttamiðstöðin Bylta á Bíldudal og Brattahlíð á Patreksfirði verða áfram lokaðar almenningi en þar mun fara fram skipulagt starf barna innan þeirra takmarkana sem settar eru um skipulagt íþróttastarf og sundkennslu. Sundlaug og líkamsrækt eru áfram lokuð fyrir almenningi. Félagsstarf aldraðra í Selinu á Patreksfirði hefst að nýju innan þeirra takmarkana sem settar eru vegna sóttvarna og hefur þjónustuþegum verið tilkynnt um fyrirkomulag þess. Bókasöfn í Vesturbyggð opna aftur og hefðbundinn opnunartími verður í Ráðhúsi Vesturbyggðar. Vesturbyggð biðlar þó til allra þeirra sem leggja leið sína í stofnanir sveitarfélagsins að gæta vel að sóttvörnum.

Þrátt fyrir þær tilslakanir sem taka gildi á mánudag og þá staðreynd að engin smit vegna Covid-19 hafi greinst á sunnanverðum Vestfjörðum þá vill Vesturbyggð ítreka mikilvægi þess að allir gæti áfram fyllstu varúðar og sóttvarna. Mikilvægt er að gæta að handþvotti og virðum nálægðartakmörk um 2 metra fjarlægð á milli einstaklinga sem ekki deila heimili sem og að hugað sé sérstaklega að hreinsun snertifleta, til að draga úr hættu á smiti. Allir íbúar í Vesturbyggð og rekstraraðilar hafa staðið sig frábærlega síðustu vikur við að tryggja sóttvarnir. Niðurstöður skimunar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Íslenskrar erfðagreiningar í síðustu viku þar sem rúmlega 400 sýni vegna Covid-19 reyndust neikvæð, staðfesta m.a. mikilvægi þess að allir standi saman við að tryggja sóttvarnir til að draga úr hættu á smiti. Það er því mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum og höldum áfram að fylgja þeim takmörkunum sem enn eru í gildi, til að draga úr hættu á að upp komi smit.

Við erum öll almannavarnir.