Hoppa yfir valmynd

Upplýs­inga­fundur vegna krapa­flóða

Boðað er til íbúa­fundar í félags­heimili Patreks­fjarðar þriðju­daginn 21. febrúar kl. 17.


Skrifað: 17. febrúar 2023

Veðrið undanfarnar vikur varð til þess að skilyrði sköpuðust fyrir ofanflóð í Vesturbyggð. Tvö flóð féllu í hlíðunum fyrir ofan Bíldudal, eitt snjóflóð í stærra lagi á Raknardalshlíðinni og krapaflóð í gegnum byggðina á Patreksfirði þann 26. janúar síðastliðinn. Mikil mildi er að enginn varð fyrir flóðunum og að þau hafi ekki haft í för með sér verulegar skemmdir. Þau höfðu þó töluverð áhrif á íbúa, enda rétt rúm 40 ár frá mannskæðum flóðum á Patreksfirði.

Vesturbyggð telur því mikilvægt að staldra við, fá upplýsingar um flóðin, viðbúnað og áætlanir í ofanflóðavörnum frá þar til bærum aðilum og gefa íbúum kost á að spyrja allra þeirra spurninga sem þeir hafa er tengjast atburðunum.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

 1. Veðurstofan
  Veittar verða upplýsingar um flóðin sem féllu fyrir ofan byggðirnar á Bíldudal og á byggðina á Patreksfirði 26. janúar síðastliðinn.
 2. Lögreglan á Vestfjörðum
  Sagt verður frá starfi aðgerðarstjórnar, vettvangsstjórnar og starfi viðbragðsaðila.
 3. Ofanflóðasjóður
  Upplýst verður um hvaða ofanflóðavarnir hafa verið settar upp í Vesturbyggð og hvaða framkvæmdir séu næst á dagskrá í sveitarfélaginu auk mögulegs inngrips fyrr.
 4. Náttúruhamfaratrygging
  Hvað tryggir Náttúruhamfaratrygging og hvernig tryggjum við eignir okkar sem best fyrir náttúruhamförum?
 5. Samantekt og fyrirspurnir.