Vegna fjölmiðlaumfjöllunar
Vegna fréttaflutnings um einelti í stofnun sveitarfélagsins vill Vesturbyggð koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
Patreksskóli er ein af grunnstofnunum sveitarfélagsins og þar fer fram öflugt og faglegt skólastarf. Við skólann starfa 25 starfsmenn sem sinna störfum sínum af miklum heilindum og faglegheitum, til að tryggja börnum í Vesturbyggð fyrsta flokks menntun. Ytra mat á Patreksskóla var gert árið 2017 að hálfu menntamálaráðuneytisins og unnið hefur verið að nokkrum umbótum. Nú stendur svo yfir vinna við innra mat skólans. Vesturbyggð er því ákaflega stolt af því góða og mikilvæga starfi sem fer fram í Patreksskóla.
Vesturbyggð lítur eineltismál sem upp koma milli starfsmanna sveitarfélasins alvarlegum augum og er tekið á slíkum málum í samræmi við viðbragðsáætlun Vesturbyggðar og ákvæði reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kyndbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.
Patreksskóli starfar í samræmi við öryggisáætlun skólans, en þar segir að stefna skólans sé að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verði undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. Um viðbrögð við tilvikum þar sem upp kemur einelti er farið eftir ákvæðum reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Skrifað: 5. febrúar 2020
Eftirfarandi eru helstu spurningar sem fram hafa komið í umræðu um Patreksskóla og Vesturbyggð og svör við þeim.
Hvað gerir skólastjóri þegar berast kvartanir vegna mögulegs eineltis?
Í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi á vinnustöðum og öryggisáætlun skólans þá boðar skólastjóri öryggistrúnaðarmann til sín og þeir bregðast við í samræmi við viðbragðsáætlun. Samkvæmt henni er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð er áhersla á að leysa mál hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.
Hvert er hlutverk eineltisnefndar í grunnskóla?
Eineltisnefnd fjallar um eineltismál gagnvart nemendum grunnskólans. Nefndin fjallar EKKI um mál sem varða einelti meðal starfsfólks. Eineltisnefndin er kosin á kennarafundi og þar er einnig kosinn formaður eineltisnefndar. Hlutverk nefndarinnar er að halda eineltisáætlun gangandi, fylgjast með bekkjarfundum, sinna ráðgjöf varðandi eineltismál sem kunna að koma upp í skólanum, stýra þemavinnu um einelti og fleira.
Hvert er hlutverk trúnaðarmanns kennara?
Trúnaðarmaður kennara er kosinn á kennarafundi til tveggja ára í senn og er hann trúnaðarmaður þeirra starfsmanna sem eru félagsmenn í Kennarasambandi Íslands. Til hans snúa sér starfsmenn með öll sín kjara- og réttindamál. Það er EKKI hlutverk trúnaðarmanns kennara að taka á eineltismálum starfsmanna.
Hvað er gert þegar einhver tilkynnir um einelti meðal starfsfólks í grunnskóla?
Skólastjóri og öryggistrúnaðarmaður ræða við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um mál. Aflað er upplýsinga um tímasetningar og gögn ef þau liggja fyrir. Leitað er leiða til að leysa málið m.a. með breytingum á vinnustað, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi fær leiðsögn og aðvörun og í einhverjum tilvikum færður til í starfi. Þá er málinu fylgt eftir og rætt við aðila máls að ákveðnum tíma liðnum. Þá er fylgst með samskiptum aðila.
Hvenær er geranda sagt upp störfum?
Láti gerandi eineltis ekki af hegðun sinni gagnvart samstarfsfélaga og viðheldur eineltinu þá leiðir það til uppsagnar úr starfi að undangengnu áminningarferli í samræmi við reglur um réttindi og skyldur starfsmanna.
Hvert er hlutverk eineltisteymis Vesturbyggðar?
Eineltisteymi Vesturbyggðar tekur við upplýsingum ef starfsmaður sveitarfélagsins telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun. Félagsmálastjóri situr í eineltisteymi og tekur við tilkynningu um einelti og sér um að virkja eineltisteymið. Gerandi og þolandi geta leitað til teymisins, ráðfært sig við aðila þess eða fengið leiðbeiningar í þeim málum sem tilkynnt hafa verið til teymisins. Eineltisteymið hefur ekki vald í starfsmannamálum viðkomandi stofnana. Eineltisteymið fer yfir mál er varða starfsmenn stofnana Vesturbyggðar og um leið og starfsmaður lýkur störfum þá rofnar ráðningarsambandið við Vesturbyggð.
Hvað gerir eineltisteymið við tilkynningu um einelti?
Eineltisteymið vinnur í samræmi við verkferla í viðbragðsáætlun sveitarfélagsins. Teymið kemur saman og gerir verkáætlun. Það aflar frekari gagna frá þeim sem tilkynnir eða öðrum sem kunna að hafa upplýsingar og vitneskju um málið. Eineltisteymið gerir aðgerðarplan sem kynnt er þolanda og hann nýtur viðeigandi og nauðsynlegra leiðbeininga og stuðnings frá eineltisteyminu. Ef þolandi telur sér ógnað á vinnustað er skoðað með hvaða hætti er unnt að tryggja öryggi hans og líðan á meðan könnun stendur. Meintur gerandi er boðaður í viðtal og upplýstur um efni kvörtuninar. Þegar teymið hefur rætt við alla hlutaðeigandi aðila leggur teymið mat á heildarmynd málsins, dregur viðhlítandi ályktanir og grípur til aðgerða. Eineltisteymið upplýsir stjórnenda um niðurstöðu máls og kemur með tillögu að úrbótum og fylgir þeim eftir.
Hvaða aðgerðir getur eineltisteymið gripið til?
Aðgerðir fara eftir alvarleika máls og hvort gerandi gengst við ofbeldinu, hvort hann sýni iðrun enda hafi ekki verið um ásetning að ræða eða hvort hann lofi að láta samstundis af atferlinu. Leiki grunur á að ólöglegt athæfi hafi átt sér stað er varða almenn hegningarlög þá er þolandi hvattur til að fara með málið til yfirvalda, svo sem lögreglu. Eineltisteymið getur EKKI áminnt eða farið fram á uppsögn geranda. Það ávallt háð mati næsta yfirmanns geranda og í samræmi við reglur um réttindi og skyldur starfsmanna.
Hvenær er eineltismáli lokið?
Máli lýkur þegar þolandi lætur vita að sú hegðun sem kvartað er yfir sé hætt. Málinu er lokið með formlegum hætti með undirskrift geranda, þolanda og teymis. Mál eru þó tekin upp að nýju ef þörf þykir.
Hvað gerist eftir að máli er lokið?
Fylgst er áfram með líðan þolanda og geranda og aðstæðum á vinnustað. Veittur er stuðningur við þolanda og geranda, séu þeir áfram starfsmenn sveitarfélagsins. Þá er veittur stuðningur eða önnu aðstoð fyrir vinnustaðinn í heild sinni. Boðinn er stuðningur við aðila máls þráttt fyrir að þeir láti af störfum hjá sveitarfélaginu.
Afhverju er fyrirspurnum vegna eineltismála ekki svarað?
Málefni sem snúa að einelti á vinnustað er starfsmannamál og þar með einstaklingsmálefni sem starfsmönnum sveitarfélags, þar með grunnskóla er óheimilt að tjá sig um. Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu skv. stjórnsýslulögum og ber að gæta trúnaðar um það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum. Láti þeir af störfum helst þagnarskylda þeirra áfram. Brot á þessum þagnarskyldum varðar refsingu skv. almennum hegningarlögum.
Af hverju er tilkynning um lausn frá störfum í bæjarstjórn ekki birt á heimasíðu sveitarfélagsins?
Í samþykkt um stjórn Vesturbyggðar getur kjörinn bæjarfulltrúi óskað eftir lausn frá störfum og er slíkri beiðni beint til bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Beiðnin er tekin fyrir á næsta formlega fundi bæjarstjórnar og er bókað um lausn frá störfum í fundargerð bæjarstjórnar sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.
Vakni frekari spurningar er bent á að senda slíkar fyrirspurnir til skólastjóra Patreksskóla, sviðsstjóra fjölskyldusviðs eða bæjarstjóra Vesturbyggðar eða eftir atvikum á netfangið vesturbyggd@vesturbyggd.is
Þá er foreldrum sérstaklega bent á að unnt er að óska eftir viðtali hjá skólastjóra, sviðsstjóra fjölskyldusviðs og bæjarstjóra ef frekari upplýsinga er þörf.
Ítarefni
Ytra og innra mat Patreksskóla
Viðbragðsáætlun vegna eineltis eða kynferðislegrar áreitni