Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Verum frábær í febrúar! - seinni hálfleikur

Sumir segja að ólíkt dýrunum hefur maðurinn aldrei áttað sig á því að eini tilgangur lífsins er að njóta þess. Það er hins vegar mín trú að meðvitað færist það í aukana dag frá degi hjá okkur mann­fólkinu að „vera slakur að njóta og lifa“. Aðrir segja að lifi maður óham­ingju­ríku lífi er erfitt að lifa en lifi maður hamingju­ríku lífi er erfitt að deyja og því komi það út á eitt. Það er hins vegar trú undir­ritaðs að við finnum öll til í lífinu og að við mikil­væg­ustu kross­götur þess eru sjaldan skilti sem vísa þér veginn, heldur iðulega ótroðnar slóðir. Eitt er hins vegar ljóst að sértu í góðu andlegu og líkam­legu jafn­vægi tekur þú yfir­veg­aðar ákvarð­anir. Þess vegna ætlum við að vera frábær í febrúar – sem og aðra mánuði reyndar 🙂


Skrifað: 15. febrúar 2021

Fréttir

Verum frábær í febrúar er hvatningarátak sveitarfélaganna og HHF til ykkar íbúa til áminningar um að hlúa að eigin hreysti og heilbrigði, sérstaklega núna þegar myrkrið virðist alls ráðandi. Dreifibréf var sent í hús með það að markmiði að gera þriðju-, fimmtu- og laugardaga að hreystidögum í febrúar. Einnig voru settar fram hugmyndir af því hvað hægt er gera nú fyrri hluta febrúar og nú mun ykkur berast annað dreifibréf fyrir seinni hluta mánaðarins. Núna í febrúar er líka landsátakið „Lífshlaupið“ í gangi og hvetjum við alla til þátttöku í því.

Því miður er það of algengt að fólk glími við lyndisraskanir á þessum tímum. Hlúum að okkur sjálfum, tökum eftir eigin líðan og leitumst við að gera það sem í okkar valdi stendur til að hafa líðan okkar ávallt sem besta. Hvort sem það er með hreyfingu, næringarríkum mat, hugleiðslu eða jafnvel faglegri aðstoð.