Hoppa yfir valmynd

Vilt þú skreyta rusla­tunnur?

Bæjar­búum býðst að skreyta grænar rusla­tunnur á Patreks­firði og Bíldudal til að glæða bæina okkar lífi og lit.


Skrifað: 26. júní 2023

Auglýsingar

Íbúar geta nú sótt um að skreyta grænar ljósastauraruslatunnur, hver með sínu nefi. Ímyndunaraflið má ráða för, til dæmis mála þær eða hekla, sauma eða prjóna utan um þær. Umsækjendur mega vera einstaklingar eða hópar, svo sem félagasamtök, vinnustaðir o.fl. Verkefnið er liður í því að gera bæjarfélagið litríkara og gera list aðgengilegri almenningi. Skreyttar ruslatunnur í öðrum bæjarfélögum, þar ber helst að nefna Vestmannaeyjabæ og Akureyrarbæ, hafa vakið mikla lukku meðal íbúa og ferðafólks.

Mælst er til þess að tunnan sé skreytt á staðnum en þó má líka óska eftir því að ruslatunnan sé tekin niður á meðan hún er skreytt. Umsækjendur sjá sjálfir um að útvega það sem þeir nota við skreytinguna.

Umsóknir um að skreyta tunnu berist í tölvupósti til menningar- og ferðamálafulltrúa. Í póstinum skal koma fram fullt nafn umsækjanda og í hvorum bænum hann vill fá úthlutaða tunnu. Hægt er að sækja um ákveðna tunnu, annars verður honum úthlutuð tunna af handahófi. Hér gildir reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“. Þá má einnig senda inn hvers kyns spurningar um verkefnið.

Íbúar fá fullt listrænt frelsi en eru beðnir um að huga að mannréttindum og að særa ekki blygðunarkennd annarra. Vesturbyggð áskilur sér rétt til að fjarlægja skreytingar sem brjóta á þessum reglum. Í skoðun er hvort ástæða sé til að finna leiðir til flokkunar á opnum svæðum og því getur núverandi kerfi breyst á næstu árum.