Yfirlýsing sveitarfélagsins Vesturbyggðar
í Morgunblaðinu 10. apríl sl. var viðtal við Björn Hembre, forstjóra Arnarlax, þar sem hann m.a. kallar eftir því að sveitarfélagið geri þjónustusamning við fyrirtækið um greiðslu hafnargjalda. Af því tilefni vill Vesturbyggð árétta nokkur atriði.
Skrifað: 14. apríl 2025
Vesturbyggð hefur ekki hafnað því að gerður verði samningur við Arnarlax líkt og kom fram í viðtalinu. Haldnir hafa verið margir fundir þar sem reynt hefur verið að ná samningi en án árangurs. Horfa verður til þess að hafnalögin veita höfnum heimild til þess að að gera langtímasamninga við notendur. Vesturbyggð telur forsendur slíks samnings að Arnarlax geri grein fyrir framtíðaráformum sínum á svæðinu. Fyrir sveitarfélagið er mikilvægt að fá skýra mynd af framtíðarsýn og áætlunum Arnarlax svo hægt sé að tryggja að samningur samræmist og styðji við langtíma uppbyggingu svæðisins og hagsmuni samfélagsins.
Í viðtalinu er vísað til samnings sem annað sjókvíaeldisfyrirtæki hefur gert við annað sveitarfélag á Vestfjörðum. Rétt er að benda á að sjókvíaeldisfiski er landað í þremur höfnum á Íslandi í dag að jafnaði, tveimur á Vestfjörðum og einni á Austurlandi. Vesturbyggð telur að samningar við eldisfyrirtæki þurfi að taka mið af aðstæðum og þörfum viðkomandi samningsaðila, annars vegar þörfum og umfangi viðkomandi sjókvíaleldis og hins vegar þörfum hafnarinnar fyrir tekjur til að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu og þjónustu. Sú staðreynd að það finnist einn samningur á þessu sviði getur ekki verið ráðandi í viðræðum aðila. M.a. er alls óvíst hvort umræddur samningur tryggi viðkomandi höfn nægar tekjur til að standa undir þeirri þjónustu sem veitt er eða tryggi jafnræði gagnvart öðrum notendum hafnarinnar.
Í viðtalinu er einnig vísað til þess að gjaldtakan sé þjónustugjald og sýna þurfi fram á kostnað við veitingu þjónustunnar. Svo því sé haldið til haga þá áskilja hafnalögin að hafnir upplýsi notendur um almennar forsendur gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá. Vesturbyggð vinnur nú að greiningu á kostnaði sem liggja mun til grundvallar gjaldtöku hafnargjalda eldisfyrirtækjanna. Greiningin mun byggja á fyrri greiningu sem KPMG vann fyrir Vesturbyggð um gjaldtöku í hafnarsjóð. Þetta er mikilvægt skref í því að tryggja að gjöld endurspegli kostnað og að viðskiptavinir, þar á meðal sjókvíaeldisfyrirtæki, greiði sanngjarnt gjald fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir.
Rétt er að útreikningur á fiskeldisgjaldi sem sveitarfélagið lagði á sjókvíaeldisfyrirtæki tók mið af Nasdaq vísitölunni. Nú er miðað við svokallaða SISALMON vísitölu til samræmis við gjaldtöku ríkisins á grundvelli laga nr. 89/2019 með síðari breytingum. Markmiðið er að gæta sanngirni og jafnræðis milli aðila er selja á markaði og þeirra sem selja tengdum aðila.
Athafnasvæði Arnarlax nær yfir þrjár af fjórum höfnum Vesturbyggðar og eru umsvifin mikil. Gott samstarf og samvinna er því mikilvæg fyrir báða aðila. Sveitarfélagið Vesturbyggð er staðráðið í að vinna áfram í góðu samstarfi við sjókvíaeldisfyrirtæki á svæðinu, þar á meðal Arnarlax, og mun áfram leitast við að tryggja sanngjarnt og gagnsætt ferli í samningaviðræðum, með það að markmiði að bæta þjónustu, tryggja efnahagslega sjálfbærni og stuðla að vexti samfélagsins.