Söfn, sýningar og setur
Fjöldi safna og sýninga er á svæðinu sem miðla mannlífi, menningu, sögu og náttúru Vestfjarða. Vestast er minjasafn að Hnjóti í Örlygshöfn og utarlega í Arnarfirði má finna listaverk Samúels Jónssonar í Selárdal.
Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti
Að Hnjóti við Örlygshöfn er einstætt safn merkilegra muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem segja sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Munirnir veita góða innsýn í lífsbaráttu og þá útsjónarsemi og sjálfsbjargarviðleitni sem fólk varð að beita til að komast af við erfiðar aðstæður. Á safninu er að finna marga áhugaverða hluti, þar á meðal hattinn hans Gísla á Uppsölum og muni sem tengjast björgunarafrekinu við Látrabjarg 1947.
Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti
Örlygshöfn, Patreksfjörður
Sjá á korti
Melódíur Minninganna
Melódíur Minninganna er tónlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar, söngvara sem opnað var 17. júní 2000 og er svolítill ævintýraheimur á Bíldudal. Þar má sjá rauða jakkann hans Hauks Morthens og fyrstu plötu Bjarkar, Arabadrengurinn. Á safninu er að finna muni frá íslensku tónlistarlífi frá sjötta til áttunda áratug síðustu aldar. Á safninu er að finna ljósmyndir úr tónlistarlífinu á Íslandi, klæðnað og hluti frá þekktu tónlistarfólki, plötur, persónuleg muni, auglýsingaplaköt og ótalmargt fleira. Sögubrot í formi mynda, muna og tónlistar sem ella væri horfið úr íslenskri tónlistarsögu. Á safninu er einnig unnt að nálgast tónlist Jóns Kr. Ólafssonar til sölu. Sjón er sögu ríkari.
Opnunartími kl. 13-18 á sumrin.
Reynimelur, Tjarnarbraut 5, Bíldudal
Sími 456 2186 /847 2542
Melódíur minninganna
Jón Kr. Ólafsson
Tjarnarbraut 5, Bíldudalur
Sjá á korti
Skrímslasetrið á Bíldudal
Fjöldi skrímsla hefur sést við Íslandsstrendur í gegnum aldirnar og síðustu tvöhundruð ár hafa þau verið algengust við Vestfirði. Fjögur höfuðskrímsli eru þekktust og hafa þau öll sést í Arnarfirði. Þetta eru Fjörulalli, Faxi, Skeljaskrímsli og Hafmaður.
Í Skrímslasetrinu er haldið utan um skrímslasögur sem lifað hafa með þjóðinni í gegnum aldirnar. Sagt er frá viðureignum manna og skrímsla á nýstárlegan og spennandi hátt. Skemmtileg umgjörð sýningarinnar hefur vakið hrifningu gesta og komið skemmtilega á óvart.
Skrímslasetrið
Strandgata 7, Bíldudalur
Sjá á korti
Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal
Í Brautarholti í Selárdal má finna ótrúleg listaverk Samúels Jónssonar frá miðri síðustu öld. Öll verk Samúels bera honum fagurt vitni og var hann víða þekktur fyrir hæfileika sína. Hans er þó hvergi getið í ritum um íslenska listasögu. Margir gerðu sér leið út í Selárdal til að líta eigin augum verk Samúels sem voru þar til sýnis eins og hver önnur fullgild listaverk. Hann hafði yndi af því að sýna gestum og ferðalöngum listaverk sín og byggingar. Samúel var talinn langt á undan sinni samtíð. Sem dæmi um það þá byggði hann upp salernisaðstöðu fyrir ferðamannastrauminn sem lagði leið sína í Selárdal til að virða fyrir sér listaverk hans og byggingar.
Samúel Jónsson fæddist árið í Arnarfirði árið 1884. Hann fluttist í Selárdal barn að aldri þar sem móðir hans var vinnukona og síðar fengu þau ábúð á hjáleigunni Tóft í dalnum. Í kjölfarið bjó Samúel á fleiri jörðum í Selárdal og í Tálknafirði. Síðast bjó hann á stað sem var kallaður Melstaður en Samúel kaus að nefna Brautarholt. Þar byggði hann íbúðarhús, kirkju og listasafn og gaf sér tíma til að sinna hugðarefnum sínum og listsköpun sem fram að þessu höfðu lengstum orðið að víkja fyrir búksorgum og brauðstriti. Samúel Jónsson lést árið 1969.
Listasafn Samúels Jónssonar
Selárdalur
Sjá á korti
Gamli bærinn á Barðaströnd
Gamli bærinn á Brjánslæk hefur undanfarin ár gengið í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk. Þar var síðsumars 2016 opnuð sýning frá Umhverfisstofnun um Surtarbrandsgilið, surtarbrand, steingervinga og allt það merka sem tengist þeim minjum. Þar eru settar fram á skýran og skilmerkilegan hátt heimildir um gróðurfar landsins sem slíkar minjar búa yfir og er sýningin opin yfir sumartímann.
Í Gamla bænum hefur nú einnig verið opnað kaffihús sem er opið á opnunartíma sýningarinnar og þar á veggjum má sjá sögu Hrafna Flóka setta fram á listrænan hátt í einstökum tréristum eftir Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur.
Gamli Bærinn – Kaffihús
Brjánslækur, 451 Patreksfjörður
Sjá á korti