Bæjarstjóri

-
Rebekka Hilmarsdóttir
- baejarstjori@vesturbyggd.is
Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri Vesturbyggðar og æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins og hefur á hendi framkvæmd ákvarðana bæjarstjórnar og málefna sveitarfélagsins að svo miklu leyti sem bæjarstjórn ákveður ekki annað.
Þá er bæjarstjóri prókúruhafi bæjarsjóðs, undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og aðrar skuldbindingar hans. Hann kemur fram fyrir hönd sveitarfélagsins og er ábyrgur fyrir starfsemi þess. Hann undirbýr fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar, semur dagskrá og boðar til funda. Þá á bæjarstjóri sæti á fundum bæjarstjórnar og bæjarráðs og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Jafnframt hefur hann rétt til setu á fundum ráða sveitarfélagsins með sömu réttindum.
Rebekka Hilmarsdóttir er bæjarstjóri Vesturbyggðar og hefur aðsetur í Ráðhúsi Vesturbyggðar, Aðalstræti 75 á Patreksfirði. Staðgengill bæjarstjóra er sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Gerður Björk Sveinsdóttir.
Bæjarstjóri Vesturbyggðar er með viðtalstíma á miðvikudögum frá kl. 10:00 – 12:30. Panta má viðtalstíma með því að hafa samband í síma 450-2300 eða á vesturbyggd@vesturbyggd.is.
Rebekka er lögfræðingur, útskrifuð frá lagadeild Háskólans í Reykjavík þar sem hún lauk meistaraprófi í lögfræði 2011, með áherslu á stjórnsýslurétt, eignarétt, auðlindarétt, félagarétt, kröfurétt og skuldaskilarétt. Umfjöllunarefni meistaranámsritgerðar hennar var á sviði stjórnsýslu- og auðlindaréttar og fjallar um Eignarráð landeigenda sjávarjarða að auðlindum innan netlaga.
Rebekka starfaði áður sem lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem hún sinnti verkefnum er vörðuðu búvöruframleiðslu, búfjárhald, notkun og nýtingu jarða, fjallskil og velferð dýra sem og málum er snúa að framleiðslu landbúnaðarafurða, slátrun, inn- og útflutningi landbúnaðarafurða, heilbrigðiseftirliti með framleiðslu, markaðssetningu matvæla og fóðurs, heilbrigði dýra og varnir gegn dýrasjúkdómum.
Rebekka hefur sinnt ýmsum nefndar- og félagsstörfum og var m.a. formaður Framkvæmdanefndar búvörusamninga, fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samninganefnd ríkisins við gerð búvörusamninga, verkefnastjóri vegna samningu reglugerða um velferð dýra og formaður Markanefndar skv. lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl.
Rebekka er framkvæmdastjóri Fasteigna Vesturbyggðar ehf. og Vesturbotns ehf.
Rebekka á sæti í eftirtöldum stjórnum fyrir hönd Vesturbyggðar:
- Samtök sjávarútvegssveitarfélaga
- Byggðasamlag um málefni fatlaðs fólks
- Rannsóknarsjóður Vestur-Barðastrandarsýslu
- Framkvæmdaráð EarthCheck
Rebekka er fædd 1984 og uppalin í Kollsvík í Vesturbyggð og er búsett á Patreksfirði. Rebekka er gift Erni Hermanni Jónssyni og eiga þau eitt barn.