Bæjarstjóri

-
Þórdís Sif Sigurðardóttir
- baejarstjori@vesturbyggd.is
Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri Vesturbyggðar og æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins og hefur á hendi framkvæmd ákvarðana bæjarstjórnar og málefna sveitarfélagsins að svo miklu leyti sem bæjarstjórn ákveður ekki annað.
Þá er bæjarstjóri prókúruhafi bæjarsjóðs, undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og aðrar skuldbindingar hans. Hann kemur fram fyrir hönd sveitarfélagsins og er ábyrgur fyrir starfsemi þess. Hann undirbýr fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar, semur dagskrá og boðar til funda. Þá á bæjarstjóri sæti á fundum bæjarstjórnar og bæjarráðs og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Jafnframt hefur hann rétt til setu á fundum ráða sveitarfélagsins með sömu réttindum.
Þórdís Sif Sigurðardóttir er bæjarstjóri Vesturbyggðar og hefur aðsetur í Ráðhúsi Vesturbyggðar, Aðalstræti 75 á Patreksfirði. Staðgengill bæjarstjóra er sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Gerður Björk Sveinsdóttir.
Bæjarstjóri Vesturbyggðar er með viðtalstíma á miðvikudögum frá kl. 10:00 – 12:30. Panta má viðtalstíma með því að hafa samband í síma 450-2300 eða á vesturbyggd@vesturbyggd.is.
Þórdís hefur mikla reynslu af stjórnun og rekstri á vettvangi sveitarfélaga. Hún var sveitarstjóri Borgarbyggðar 2020-2022 og bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar 2013-2020. Þórdís hefur setið í ýmsum stjórnum og starfshópum þ.á m. starfshóp um aðgerðir á Flateyri í kjölfar snjóflóðs, í stjórn Brákar húsnæðissjálfseignarstofnunar, Gleipnis nýsköpunar- og þróunarmiðstöðvar, Blábankans á Þingeyri og Lýðskólans á Flateyri. Þórdís er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Reykjavíkur og B.sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.