Fundur haldinn í Svörtuloftum, fundarsal í ráðhúsi Vesturbyggðar, 10. september 2024 og hófst hann kl. 14:00
Nefndarmenn
- Maggý Hjördís Keransdóttir (MHK) varamaður
- Jenný Lára Magnadóttir (JLM) varaformaður
- Páll Vilhjálmsson (PV) formaður
Starfsmenn
- Gerður Björk Sveinsdóttir (GBS) bæjarstjóri
- Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir (NLS) sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði
- Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Almenn erindi
1. Fjárhagsáætlun 2024 - viðaukar
Lagður fyrir viðauki 3 við sameiginlega fjárhagsáætlun Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.
Viðauki 3 er lagður fyrir vegna uppsetningar á strengjum og endurnýjun á rafmagnstöflum við smábátahafnir við Patrekshöfn. Viðaukanum er mætt með lækkun á handbæru fé um sem nemur 5.000 þ.kr
Viðaukinn hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu en handbært fé í A og B hluta lækkar um 5.000 þ.kr og verður 138.297 þ.kr.
Bæjarráð samþykkir viðaukann og vísar honum áfram til staðfestingar bæjarstjórnar.
2. Vegaframkvæmdir
Rætt um vegaframkvæmdir á svæðinu og fyrirsjáanlegar tafir á þeim.
Um leið og bæjarráð Vesturbyggðar fagnar þeim samgöngubótum sem orðið hafa á svæðinu undanfarin ár þá er mikið verk enn óunnið og staða í vegamálum í miklu ólagi.
Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.
Bæjarráð lýsir jafnframt yfir áhyggjum af mögulegum drætti á útboði lokaáfanga á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir til fjölda ára og mikið áhyggjuefni ef frekari tafir verða á.
Mikilvægt er að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum um Bíldudalsveg 63 niður Trostansfjörð þar sem sú framkvæmd er gríðarlega mikilvægur hlekkur í vegasamgöngum svæðisins.
Bæjarráð skorar á stjórnvöld að taka samgönguáætlun til afgreiðslu á fyrstu dögum haustþings þar sem ólíðandi er að ekki sé til staðar gildandi framkvæmdaáætlun í samgöngumálum.
Bæjarstjóra falið að kalla eftir svörum um stöðu mála.
3. Suðurfjarðagöng, jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán
Lögð fyrir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar um Suðurfjarðagöng, undir Mikladal og Hálfdán ásamt bókun heimastjórnar Tálknafjarðarhrepps þar sem tekið er undir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar. Bókunin er eftirfarandi:
"Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar því að aukin áhersla sé lögð á að flýta undirbúningi jarðgangaframkvæmda í jarðgangaáætlun samgönguáætlunar, til að tryggja öryggi vegfarenda, m.a. með vísan til umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2. september sl. um að flýta jarðgangaframkvæmdum á norðanverðu landinu.
Heimastjórn Patreksfjarðar telur afar brýnt að flýtt verði undirbúningi og framkvæmd nauðsynlegra rannsókna vegna jarðgangaframkvæmda undir Mikladal og Hálfdán, Suðurfjarðagöng, á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Suðurfjarðagöng eru skv. jarðgangaáætlun Vestfjarða frá 2021 og ályktunar 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga í október 2023 næstu jarðgöng sem ráðast skal í á Vestfjörðum ásamt Álftafjarðargöngum, en engum jarðgöngum er til að dreifa á sunnanverðum Vestfjörðum og ekki aðrar samgönguleiðir í boði fyrir íbúa en aka yfir fjallvegi allt árið um kring, til að sækja þjónustu og vinnu.
Heimastjórn Patreksfjarðar bendir á þá áherslu sem lögð var á Suðurfjarðagöng í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna í vor og nauðsyn þess að tryggja að samgöngur innan sveitarfélagsins Vesturbyggðar séu öruggar. Brýnt er að tryggja öruggar samgöngur milli byggðakjarnanna til að íbúar og fyrirtæki geti notað grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu án áhættu árið um kring. Má í því sambandi benda á sjúkraflug á flugvöllinn á Bíldudal en þangað er yfir tvo erfiða fjallavegi að fara.
Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur því bæjarstjórn Vesturbyggðar til að þrýsta á að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun, til að tryggja öryggi íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, bæta aðgengi að grunnþjónustu og tryggja atvinnusókn innan sunnanverðra Vestfjarða."
Bæjarráð tekur heilsuhugar undir bókanir heimastjórnanna og mun beita sér fyrir því að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun.
4. Slökkvilið Vesturbyggðar
Slökkviliðsstjóri Vesturbyggðar kom á fund bæjarráðs og fór yfir málefni slökkviliða í Vesturbyggð.
Lagt fyrir erindi fá HMS um eftirfylgd með brunavarnaáætlun Versturbyggðar og úttekt á starfssemi slökkviliðsins.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra að svara erindi HMS.
5. Styrkumsóknir til menningar- og ferðamálaráðs 2024
Menningar- og ferðamálafulltrúi sat fundinn undir liðnum.
Lagðar fyrir styrkbeiðnir sem bárust fyrir þriðju úthlutun ársins 2024. Alls bárust fimm umsóknir.
1. Minjasafn Egils sækir um styrk fyrir varðveislu og viðgerðum á bátnum Mumma BA21. Sótt er um 150 þúsund króna styrk.
2. Minjasafn Egils sækir um styrk fyrir varðveislu og viðgerðum á bátnum Skúla Hjartarsyni BA250. Sótt er um 150 þúsund króna styrk.
3. Minjasafn Egils sækir um styrk fyrir myndskreytingum á Safnahúsi Minjasafns Egils Ólafssonar. Sótt er um 142.830 króna styrk.
Bæjarráð hafnar öllum styrkbeiðnum Minjasafnsins þar sem þær falla ekki undir úthlutunarreglur sjóðsins og bendir þeim á að fara með beiðnirnar inní fjárhagsáætlunarvinnu.
4. Skjaldborg -hátíð íslenskra heimildarmynda sækir um styrk fyrir verkefninu Skjaldbakan sem er barna- og fræðslustarf varðandi kvikmyndahátíðina Skjaldborg. Sótt er um 250 þúsund krónur.
Bæjarráð samþykkir styrkbeiðni að upphæð 150 þús.
5. Norræna félagið í Vestur-Barð sækir um styrk að upphæð 150 þúsund krónum vegna vinabæjarheimsóknar.
Bæjarráð hafnar styrkbeiðninni og óskar umsækjanda góðs gengis.
Menningar- og ferðamálafulltrúa falið að svara umsækjendum.
6. Móttökuáætlun fyrir íbúa af erlendum uppruna
Erindi vísað til bæjarráðs frá 3. fundi fjölskylduráðs. Á fundinum lagði ráðið til að bæjarráð skipaði starfshóp um móttökuáætlun fyrir íbúa af erlendum uppruna.
Bæjarráð samþykkir samhljóða að skipaður verði starfshópur um móttökuáætlun fyrir íbúa af erlendum uppruna.
Starfshópurinn verði skipaður eftirtöldum aðilum:
Þórkatla Soffía Ólafsdóttir formaður fjölskylduráðs
Páll Vilhjálmsson formaður bæjarráðs
Joanna Kozuch varamaður í fjölskylduráði
Ryte Maumeviciut
Jessika Guerrero
Pawel Dobosz
Áætlaðir eru 3-4 fundir og lokaafurð verði tilbúin 1.febrúar.
7. Umgengni í Fjósadal, Patreksfirði
Lögð fyrir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar um umgengni i Fjósadal, Patreksfirði. Bókunin er eftirfarandi:
"Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur íbúa sem eiga hluti sem má farga í Fjósadal, að taka til hendinni og hreinsa svæðið og í sameiningu bæta umgengni um svæðið.
Þá leggur heimastjórn til við bæjarstjórn að átak verði gert í tiltekt á svæðinu og öll umgengni um svæðið af hálfu sveitarfélagsins og verktaka á vegum þess verði bætt verulega. Heimastjórn telur mikilvægt að farið verði í slíkt átak til að bæta aðgengi og umhverfi fyrir þá íbúa sem nýta fiskhjallana til matvælaframleiðslu og þá sem nýta svæðið til útivistar
Einnig sést svæðið vel frá sjó fyrir þá farþega skemmtiferðaskipa sem heimsækja Patreksfjörð og að mati heimastjórnar, er ekki boðlegt að svæðið eins og það er í dag sé það fyrsta sem býður gesti velkomna.
Einnig verði gert átak í að tryggja rétta skráningu á eignarhaldi fiskhjalla í Fjósadal og sveitarfélagið hlutist til um að fjarlægðir verði þeir fiskhjallar sem ekki finnast eigendur að, sem og þeir fiskhallar sem eru hrundir og fokhætta er af.
Heimastjórn leggur til að unnin verði tímaáætlun um átaksverkefnið og hreinsunarátaki á svæðinu verði lokið eigi síðar en vorið 2025."
Bæjarráð tekur undir áskorun heimastjórnar Patreksfjarðar varðandi umgengni í Fjósadal og hvetur íbúa til að taka höndum saman og bæta ásýnd svæðisins.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að útbúa tímaáætlun um hreinsunarátak sem og að vinna að bættri skráningu á eignarhaldi fiskhjalla á svæðinu.
Til kynningar
9. Löndun byggðakvóta í Tálknafirði
Lögð fram til kynningar tillaga frá heimastjórn Tálknafjarðar varðandi löndun byggðakvóta í Tálknafirði, bókunin er eftirfarandi:
"Heimastjórn Tálknafjarðar leggur til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að settar verði reglur um að byggðakvóta sem úthlutað er til báta í Tálknafirði verði landað í Tálknafirði.
Með því móti er betur tryggt að Tálknafjarðarhöfn fái tekjur af lönduðum afla til að standa undir þeim framkvæmdum og endurbótum sem eru löngu orðnar nauðsynlegar á höfninni. Unnið er að því að koma þessum framkvæmdum inn í Samgönguáætlun og með því að landa úthlutuðum byggðakvóta Tálknafjarðar í Tálknafjarðarhöfn er verið að tryggja að tekjur komi inn á móti þeim kostnaði sem fellur til við framkvæmdirnar."
10. Verndarsvæði í byggð
Tillaga heimastjórnar Patreksfjarðar um endurskoðun á verkefninu "Verndaráætlun í byggð" á Patreksfirði.
Byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðnum.
Bæjarráð óskar eftir að fá frekari kynningu á verkefninu.
11. Brunnar Patreksfirði Endurgerð götu
Lögð fram til kynningar verkfundargerð 4. Framkvæmdir ganga nokkurn veginn skv. áætlun. Fyrirhuguð verklok á útboðsverki er 1 okt.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:15